Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Síðasti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins undir íslenskri formennsku

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins - mynd

Síðasti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins undir íslenskri formennsku var haldinn á Hilton Nordica í Reykjavík dagana 16. til 18. mars, en Rússland tekur formlega við keflinu á ráðherrafundi í Reykjavík í maí. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði fundargesti sem flestallir tóku þátt um fjarfundabúnað. 

Hátt í 200 þátttakendur frá hinum átta ríkjum Norðurskautsráðsins ásamt fulltrúum frumbyggjasamtaka, vinnuhópa og yfir 30 áheyrnaraðila tóku þátt í fundinum. Guðlaugur Þór þakkaði þátttakendum fyrir samvinnuna undanfarin tvö árin og minntist þess að formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu hafi verið lituð af COVID-19 faraldrinum en þrátt fyrir allt geti Íslendingar verið stoltir af því sem áunnist hafi. Má þar helst nefna alþjóðlega ráðstefnu um plastmengun í norðurhöfum sem haldin var á dögunum í gegnum fjarfundarbúnað með þátttakendum heimshorna á milli. Guðlaugur Þór sagði enn fremur að meðlimir Norðurskautsráðsins hefðu sýnt einstaka aðlögunarhæfni og verið einkar lausnarmiðuð þegar harðnaði á dalnum vegna heimsfaraldursins þar sem dagleg starfsemi ráðsins hefði í raun lítið raskast þrátt fyrir allt. 

Ísland hefur lagt áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, fólkið á norðurslóðum og öflugra Norðurskautsráð í sinni formennsku. Eins og áður sagði munu Rússar taka við formennskukeflinu af Íslandi á ráðherrafundi í maí. Þrátt fyrir að komið sé að lokum íslensku formennskunnar munu áherslur og verkefni hennar lifa áfram í störfum Norðurskautsráðsins, má þar helst nefna aukna áherslu á samstarf með ungu fólki á norðurslóðum og ramma um aukið samráð um málefni hafsins, ásamt því að haldið verður áfram að leita leiða til að takast á við heimsfaraldurinn á norðurslóðum.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira