Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Sif Gunnarsdóttir skipuð í embætti forsetaritara

Sif Gunnarsdóttir - mynd

Embætti forsetaritara var auglýst laust til umsóknar 27. nóvember 2020 og bárust 60 umsóknir um embættið. Forsætisráðherra skipaði ráðgefandi hæfnisnefnd í janúar 2021 til að meta hæfni umsækjenda. Að loknu fyrsta mati hæfnisnefndar var ákveðið að bjóða 33 umsækjendum að leysa skriflegt verkefni og af þeim var síðan 17 umsækjendum boðið í viðtal við nefndina auk, þess sem leitað var umsagna um þá. Hæfnisnefnd skilaði forseta Íslands og forsætisráðherra greinargerð, dags. 8. mars sl., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að átta umsækjendur væru allir mjög vel hæfir til að gegna embættinu. Að lokinni skoðun á greinargerð hæfnisnefndar og öðrum gögnum málsins var ákveðið að bjóða þeim átta umsækjendum sem metnir voru mjög vel hæfir í framhaldsviðtal.

Er það niðurstaða forseta Íslands og forsætisráðherra á grundvelli heildarmats á umsóknum, greinargerð hæfnisnefndar og öðrum gögnum málsins að Sif Gunnarsdóttir sé hæfust umsækjenda til að hljóta skipun í embætti forsetaritara. Sif er með BA-próf í danskri tungu og bókmenntum frá Háskóla Íslands og meistarapróf í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum auk þess sem hún lauk diplómanámi í rekstrarhagfræði við Háskóla Íslands árið 2006. Hún var forstöðumaður Höfuðborgarstofu á árunum 2007-2013 og forstöðumaður Norræna hússins í Færeyjum á árunum 2013-2018. Þá hefur hún einnig fengist við kennslu og dagskrárgerð fyrir hljóðvarp. Sif starfar nú sem skrifstofustjóri menningarmála á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum