Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Undirritaði samevrópska ráðherrayfirlýsingu um stafræna tækni

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra - mynd

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra undirritaði í dag viljayfirlýsingu ráðherra Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna um tæknimál. Yfirlýsingin felur í sér vilja ríkjanna til að leggja áherslu á nýtingu stafrænnar tækni í því skyni að ná markmiðum í loftslagsmálum og auka sjálfbærni. Þá er horft til markmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Yfirlýsingin var undirrituð í dag á fundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og EES-þjóðanna um stafræna þróun (e. Digital Day).

Í henni kemur fram að með því að styðjast við stafræna tækni megi bæta nýtingu auðlinda, minnka orkusóun og vinna að loftslagsmarkmiðum.

Markmið yfirlýsingarinnar er að Evrópuríkin verði leiðandi í umhverfisvænni stafrænni umbreytingu. Í henni segir að stuðla eigi að grænni stafrænni fjárfestingu, bæði á vegum hins opinbera og í einkageiranum. Þannig verði til eftirsóknarverð störf á sama tíma og stuðlað er að sjálfbærri þróun.

Í yfirlýsingu ráðherranna er tekið fram að mikilvægt sé að tæknigeirinn tryggi umhverfisvæna hönnun og unnið sé að dreifingu stafrænna neta, tækni og vöru. Evrópa geti keppt á heimsvísu á græna tæknimarkaðnum, einkum með því að stuðla að nýstárlegri tækni, minni raforkunotkun og góðum umhverfisvænum tæknilausnum.

„Það er mikilvægt að við fjárfestum í grænni, stafrænni framtíð. Ísland stendur að mörgu leyti vel en við þurfum að efla enn frekar stafræna innviði og fjárfesta í nauðsynlegum umbótum og umbreytingum til að styrkja samkeppnisfærni Íslands. Fjölbreytt stafræn þróun getur skapað verðmæt störf og stafrænar afurðir geta styrkt frekar grundvöll fyrir lífsgæði okkar til framtíðar,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira