Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók við tillögum að endurskoðaðri norðurslóðastefnu

Guðlaugur Þór Þórðarson og alþingismennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón Brjánsson og Njáll Trausti Friðbertsson. Með þeim er Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir, starfsmaður nefndarinnar. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag við tillögum nefndar þingmanna úr öllum flokkum sem hann hafði falið að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Á grundvelli tillagna nefndarinnar mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggja fram á næstunni tillögu til þingsályktunar um nýja norðurslóðastefnu.

„Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og það er tímabært að uppfæra norðurslóðastefnuna. Hún þarf að miða að því að gæta íslenskra hagsmuna í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

„Í tillögum nefndarinnar er meðal annars fjallað um stöðu Íslands sem norðurslóðaríkis, víðtæk áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum, breytt landslag öryggismála og velferð þeirra fjögurra milljóna manna sem búa á svæðinu,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður þingmannanefndarinnar.

Núgildandi stefna Íslands í málefnum norðurslóða byggist á þingsályktun sem samþykkt var samhljóða af Alþingi í mars 2011. Á þeim áratug sem liðinn er hafa augu umheimsins í vaxandi mæli beinst að norðurslóðum, ekki síst vegna örra umhverfisbreytinga af völdum hlýnunar loftslags. Þá hefur Ísland tekist á hendur veigamikið hlutverk í alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins með formennsku í Norðurskautsráðinu á tímabilinu 2019-2021. Í ljósi þessa lagði Guðlaugur Þór Þórðarson til við ríkisstjórn að ráðist yrði í endurskoðun norðurslóðastefnunnar og skipaði í því skyni nefnd níu þingmanna með tilnefningum frá öllum þingflokkum.

Nefndin hefur nú skilað ráðherra tillögum um áhersluþætti sem norðurslóðastefna Íslands ætti að miða að, auk greinargerðar. Áhersluþættirnir eru eftirfarandi: 

1. Sjónum beint að velferð íbúa á norðurslóðum. 
2. Spornað gegn áhrifum loftslagsbreytinga.
3. Umhverfisvernd verði í öndvegi.
4. Varðstaða um heilbrigði hafsins. 
5. Nýting efnahagstækifæra með sjálfbærni að leiðarljósi.
6. Efling viðskipta og samstarfs, ekki síst við vestnorrænu ríkin.
7. Virk þátttaka í alþjóðasamstarfi á grundvelli grunngilda utanríkisstefnunnar.
8. Áframhaldandi stuðningur við Norðurskautsráðið.
9. Áhersla á virðingu fyrir alþjóðalögum og friðsamlega lausn deilumála.
10. Sjálfbær þróun og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi.
11. Dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis og orkuskipti tryggð.
12. Auka öryggi og vöktun í samgöngum á hafi og í lofti.
13. Efling getu til leitar og björgunar. 
14. Öryggishagsmuna gætt á borgaralegum forsendum og á grunni þjóðaröryggisstefnu.
15. Jákvæðni gagnvart auknum áhuga á norðurslóðum, að vissum skilyrðum uppfylltum.
16. Styrking stöðu og ímyndar Íslands sem norðurslóðaríkis.
17. Stuðningur við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og innlendar rannsóknir.
18. Skapa Hringborði norðurslóða umgjörð til framtíðar. 
19. Efling Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi.

Auk Bryndísar áttu sæti í nefndinni  þau Ari Trausti Guðmundsson, fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi þingflokks Pírata, Guðjón S. Brjánsson, fulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar, Inga Sæland, fulltrúi þingflokks Flokks fólksins, Karl Gauti Hjaltason, fulltrúi þingflokks Miðflokksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, fulltrúi þingflokks Framsóknarflokksins, Njáll Trausti Friðbertsson, fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi þingflokks Viðreisnar.

Nefndinni var falið að fjalla um málefni norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, s.s. vistfræðilegu, efnahagslegu, pólitísku og öryggislegu. Hélt nefndin alls sautján fundi og ráðfærði sig við fjölda sérfræðinga og hagaðila. Nefndarmönnum gafst einnig kostur á að taka þátt í heimsókn utanríkisráðherra til Akureyrar í maí 2020, þar sem umræðufundir voru haldnir með þátttöku fjölmargra aðila sem koma að norðurslóðastarfi á Norðurlandi.

 
  • Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson á blaðamannafundinum í dag. - mynd
  • Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, afhendir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tillögurnar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum