Hoppa yfir valmynd
22. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Harmar ákvörðun Tyrklands um að segja sig frá Istanbúl-samningi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra - myndHaraldur Guðjónsson


Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra harmar ákvörðun tyrkneska stjórnvalda í síðustu viku að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimililsofbeldi en samningurinn hefur jafnan verið kenndur við borgina Istanbúl í Tyrklandi. „Með því að segja sig frá Istanbúl-samningnum eru stjórnvöld í Tyrklandi að grafa undan mikilvægum lagagrunni sem tryggir fórnarlömbum ofbeldis réttaröryggi. Það ætti að vera markmið allra Evrópuríkja að efla þennan grunn, fremur en draga úr honum,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lýsti um helgina yfir vonbrigðum sínum með þessa ákvörðun stjórnvalda í Ankara í yfirlýsingu á Twitter. 


Istanbúl-samningurinn er fyrsti bindandi alþjóðasamningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og bjóða gerendum úrræði og meðferð.

Samningurinn var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Hann var,fullgiltur 26. apríl 2018 og tók gildi hér á landi 1. ágúst sama ár. Fjöldi þjóðarleiðtoga sem og forsvarsmenn Evrópuráðsins hafa nú þegar harmað ákvörðunina sem Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti um í síðustu viku en verði ákvörðuninni hrint í framkvæmd myndi þeim ríkjum sem fullgilt hafa samninginn fækka í þrjátíu og þrjú.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira