Hoppa yfir valmynd
24. mars 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Meira svigrúm heimilað við endurgreiðslur stuðningslána

Lánastofnunum verður heimilt að hliðra endurgreiðslutíma stuðningslána í allt að 12 mánuði til viðbótar við þann frest sem áður var gefinn. Þetta kemur fram reglugerð sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur undirritað en breytingin er liður í að aðstoða rekstraraðila sem eiga í erfiðleikum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Liðlega 1.100 umsóknir um stuðningslán hafa verið afgreiddar að fjárhæð 9,4 milljörðum króna til u.þ.b. 945 aðila.

Heimilt er að veita stuðningslán með ríkisábyrgð út maí 2021. Samkvæmt eldra fyrirkomulagi hefði þurft að greiða fyrstu afborganir af lánunum um næstu áramót en með breyttri reglugerð verður heimilt að seinka þeim um allt að tólf mánuði.

80 millljarðar í fjölbreyttan stuðning

Síðustu mánuði hafa ríflega 80 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Á fimmta þúsund rekstraraðilar og nær fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.

Greiddur hefur verið yfir milljarður króna í viðspyrnustyrki frá því að byrjað var að taka við umsóknum fyrr í mánuðinum en alls hafa 1.290 umsóknir borist og 835 verið afgreiddar, eða um 65%.

Viðspyrnustyrkjum er ætlað að aðstoða rekstraraðila við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætir og gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá nóvember 2020 til og með maí 2021 og er sótt um styrkina fyrir einn mánuð í senn á vef Skattsins.

Frá því í janúar hafa verið greiddir um 9,3 milljarðar króna í tekjufallsstyrki en viðspyrnustyrkir eru beint framhald þeirra. Alls hafa borist um 2.000 umsóknir um tekjufallsstyrki og hafa 96% þeirra verið afgreiddar. Tekjufallsstyrkir eru ætlaðir rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli á tímabilinu frá apríl til október með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.

Þá hafa verið greiddir rúmir 2,2 milljarðar króna í lokunarstyrki.

Flest þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið eru með tíu launamenn eða færri. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum