Hoppa yfir valmynd
24. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg yfirlýsing 19 ríkja vegna mannréttindabrota í Belarús

Sameiginleg yfirlýsing 19 ríkja vegna mannréttindabrota í Belarús - myndAndrew Keymaster/Unsplash

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, greindi í dag frá stuðningi Íslands við stofnun alþjóðlegs vettvangs félagasamtaka sem hefur það hlutverk að afla og varðveita sönnunargögn fyrir alvarlegum mannréttindabrotum í Belarús (International Accountability Platform Belarus – IAPB). Ísland mun styðja við starf IAPB með framlagi að upphæð 50 þúsund evra, eða tæplega átta milljónum íslenskra króna. 

Í dag sendu nítján ríki, Ísland þar á meðal, frá sér pólitíska yfirlýsingu til stuðnings IAPB. Dönsku félagasamtökin DIGNITY fara fyrir vettvangnum, ásamt samtökunum REDRESS og mannréttindasamtökunum Viasna og International Committee for Investigation of Torture í Belarús. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að stjórnvöld í Belarús hafi gerst sek um alvarleg og fordæmalaus brot á mannréttindum í tengslum við forsetakosningarnar sem fóru fram 9. ágúst síðastliðinn. Þessi brot feli meðal annars í sér handahófskenndar handtökur, farbönn, pyntingar og aðrar grimmilegar, ómannúðlegar og vanvirðandi refsingar, þar með talið kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. 

Ríkin segjast ennfremur styðja kröfu íbúa Belarús fyrir lýðræðislegum umbótum og fordæma kerfisbundin og gróf mannréttindabrot yfirvalda. Þá sé brýn þörf á að tryggja að sönnunargögnum um brotin sé safnað með öruggum og viðeigandi hætti í samræmi við alþjóðlega staðla, en IAPB hefur tekið að sér að safna, sannreyna og varveita upplýsingar og sönnunargögn um alvarleg brot á mannréttindum sem framin hafa verið í Belarús í aðdraganda forsetakosninganna 2020 og í kjölfar þeirra. Tilgangur IAPB er að tryggja þessi gögn svo að unnt verði að afhenda þau síðari rannsókn og mögulegrar saksóknar í umboði Sameinuðu þjóðanna.

Ríkin sem standa að yfirlýsingunni, auk Íslands, eru Austurríki, Belgía, Kanada, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Þýskaland, Lettland, Litháen, Holland, Noregur, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Sviss, Bretland og Bandaríkin. 

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér

 

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum