Hoppa yfir valmynd
25. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun um líknarþjónustu um allt land

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun til fimm ára um líknarþjónustu. Áætlunin byggist á greiningu sem gerð hefur verið á þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð og tillögum um bætta þjónustu þar að lútandi í öllum landshlutum. Lagðar eru til aðgerðir til að efla og byggja upp líknarþjónustu á sérgreinasjúkrahúsum, á hjúkrunarheimilum og í þjónustu við fólk í heimahúsum. Aðgerðaáætlunin tekur mið af heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Einnig voru höfð til hliðsjónar fyrirmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að líknarmeðferð skuli vera hluti af heilbrigðisþjónustu aðildarríkja hennar. Einstakar aðgerðir í áætluninni eru tímasettar og sett fram mælanleg markmið með hverri þeirra. Þjónustuveitendum í heilbrigðisþjónustunni verður í framhaldinu gert að innleiða þá þætti áætlunarinnar sem heyra undir þeirra þjónustusvið.

Í janúar 2019 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að gera tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, suður- og vesturlandi. Hlutverk hópsins var að taka saman yfirlit, greina þörf líknar- og lífslokameðferðar á svæðinu ásamt því að setja fram tillögur um skipulag og framkvæmd og gera kostnaðaráætlun. Hópurinn skilaði ráðherra skýrslu í nóvember sama ár. Áður hafði starfshópur um skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á Akureyri á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands lokið störfum og skilað af sér skýrslu um sama efni. Frá því skýrslurnar komu út stjórnendur hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnana verið hvattir til að rýna skýrslurnar og innleiða hjá sér þær tillögur sem þar eru lagðar fram og eflt geta þjónustuna.

Líknarmeðferð byggist á einstaklingsmiðaðri nálgun þar sem lögð er áhersla á að veita árangursríka meðferð verkja og annarra einkenna og sálfélagslegan og andlegan stuðning sem er í samræmi við þarfir, gildi og menningarlegan bakgrunn sjúklings og fjölskyldu hans.

Áherslur aðgerðaáætlunarinnar eru m.a. þessar:

  • Aðgengi fagfólks að sérfræðiþekkingu um líknarmeðferð verði aukið.
  • Líknarmeðferð verði í boði fyrir alla íbúa hjúkrunarheimila sem á þurfa að halda.
  • Þekking innan heimahjúkrunar til að veita almenna líknarmeðferð í heimahúsum verði efld og þeim sem njóta þjónustunnar tryggð örugg læknisþjónusta af hálfu heilsugæslu.
  • Þverfaglegt samstarf við veitingu sérhæfðrar líknarmeðferðar innan sérgreinahúsanna verði aukið.
  • Teymisvinna fagstétta á hjúkrunarheimilum vegna líknarþjónustu verði virk þar sem aðkoma og hlutverk þeirra sem koma að meðferð og umönnun sé skýrt og greinilegt.
  • Teymisvinna fagstétta vegna líknarmeðferðar sem veitt er á heimilum fólks verði skýr og skilgreind. 

Menntun, fagleg ráðgjöf og almenn fræðsla

Til að auka aðgengi fagfólks að sérfræðiþekkingu um líknarmeðferð verða settar á fót miðlægar líknarmiðstöðvar á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hlutverk þeirra verður að veita ráðgjöf til þjónustuveitenda um allt land og sinna stuðningi, fræðslu og þjálfun. Gert er ráð fyrir að líknarmeðferð verði efld í námsskrá í námi fagstétta.

Stuðlað verður markvisst að aukinni þekkingu og skilningi almennings á tilgangi og eðli líknarmeðferðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira