Hoppa yfir valmynd
25. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra opnar alþjóðlega ráðstefnu um stafræna tækni og lýðræði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði alþjóðlegu ráðstefnuna Democracy in a Digital Future í dag. Forsætisráðuneytið, í samvinnu við Rannsóknarsetrið EDDU við Háskóla Íslands, Alþingi og fjölmiðlanefnd, stendur fyrir ráðstefnunni sem lýkur á morgun, 26. mars.

Í ávarpi sínu sagði forsætisráðherra að mikilvægt væri að nýta þær tæknibreytingar sem framundan eru þannig að þær nýtist öllum. Tæknin væri ekki hlutlaus, stafræn tækni hefði ólík áhrif á kynin og stjórnvöld hefðu ríkum skyldum að gegna til að tryggja að almenningur verði þátttakendur í þessum breytingum en ekki áhorfendur.

Á ráðstefnunni koma saman innlendir og erlendir fræðimenn á sviði stjórnmálafræði, heimspeki, lögfræði og tæknifræða ásamt stjórnmálamönnum og sérfræðingum til að fjalla um þær áskoranir sem lýðræðið stendur frammi fyrir á 21. öldinni. Þeirra á meðal eru Shoshana Zuboff, prófessor í stjórnun við viðskiptadeild Harvard-háskóla, og David Runciman, prófessor í stjórnmálafræði við Cambridge-háskóla.

Meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni eru áhrif nýjunga á sviði stafrænnar tækni á lýðræði, jafnrétti og einstaklingsbundin réttindi og hlutverk stjórnvalda við að tryggja að tækniþróun taki mið af lýðræðislegum gildum. Þá verður sjónum beint að vexti samfélagsmiðla, útbreiðslu falsfrétta og hnignun hefðbundinnar fjölmiðlunar. Ráðstefnan, sem mun að mestu leyti fara fram á ensku, fer fram rafrænt og er aðgangur öllum opinn en hægt er að skrá þátttöku sína á heimasíðu ráðstefnunnar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum