Hoppa yfir valmynd
25. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Hliðarviðburður stjórnvalda á 65. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Hliðarviðburðurinn: Áherslur stjórnvalda á Íslandi í Covid-faraldrinum og útrýming kynbundins ofbeldis fór fram í dag. Viðburðurinn sem var rafrænn var haldinn af íslenskum stjórnvöldum í tengslum við 65. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnunarávarp þar sem hún fór yfir áhrif faraldursins á kynjajafnrétti og mikilvægi þess að aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins hafi jafnrétti að leiðarljósi.

Að loknu ávarpi fóru fram umræður um lykiláskoranir stjórnvalda vegna faraldursins út frá kynjasjónarmiðum. Viðburðurinn var í formi pallborðs og leiddi Berglind Rós Magnúsdóttir dósent við Háskóla Íslands umræður.

Í pallborði sátu Marta Birna Baldursdóttir, verkefnisstýra kynjaðrar fjárlagagerðar, Steinunn Rögnvaldsdóttir, stjórnarmeðlimur femínískra fjármála, Heiður Margrét Björnsdóttir, formaður starfshóps um endurmat á störfum kvenna og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Þemu 65. fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna eru full þátttaka og ákvarðanataka kvenna á opinberum vettvangi, valdefling kvenna og stúlkna um heim allan og útrýming kynbundins ofbeldis. Einnig verður fjallað um hvernig baráttan fyrir jafnrétti kynjanna tengist almennri velferð og sjálfbærri þróun ríkja.

Margvísleg tækifæri fylgja rafrænni þátttöku og hefur sendinefnd Íslands á fundinum aldrei verið fjölmennari en hana skipa 65 manns. Þá er aukin áhersla lögð á svæðisbundna viðburði. Íslensk stjórnvöld standa að auki fyrir rafrænu pallborði þar sem meðal annars verður farið yfir mikilvægi kvennanefndafundarins og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir Ísland.

Upptaka af hliðarviðburði stjórnvalda

Ávarp forsætisráðherra á 65. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna má lesa hér

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum