Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Barnið verður hjartað í kerfinu – breytingar á verkefnum Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á fundinum í dag. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálráðherra, mælti nýverið á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingar á verkefnum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins vegna aukinnar samvinnu og samþættingar þjónustu og nýrra stofnana sem fara með málefni barna og velferðarþjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að staða stofnunarinnar sem faglegrar miðstöðvar um þriðja stigs þjónustu við fötluð börn verði fest í sessi og henni verði veitt aukið hlutverk þegar kemur að stuðningi við fyrsta og annars stigs þjónustu.

Helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að nafni stofnunarinnar er breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð og hlutverk stofnunarinnar í samþættingu þjónustu skýrt. Þá er Greiningar- og ráðgjafarstöð falið aukið hlutverk við að veita sérhæfðar leiðbeiningar, ráðgjöf og fræðslu til þeirra sem veita fötluðum börnum þjónustu og er gert ráð fyrir að þjónustuveitendur geti sótt faglegan stuðning í tengslum við þjónustu við fötluð börn til stofnunarinnar. Í frumvarpinu eru skilgreiningar laganna einnig uppfærðar með hliðsjón af hugtakanotkun í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ásamt því sem markhópar eru skilgreindir betur og stofnuninni veittar heimildir til að setja reglur um frumgreiningar og langtímaeftirfylgd.

Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun á lagaumhverfi um þjónustu í þágu farsældar barna. Um er að ræða breytingar sem hafa það að markmiði að setja barnið í forgrunn þegar kemur að þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Þessar breytingar eiga að stuðla að samþættingu þjónustu og auknu samstarfi þjónustuveitenda og lögð er rík áhersla á að ryðja í burtu hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Mitt helsta verkefni frá því ég tók við embætti ráðherra hefur verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra, og þetta frumvarp er hluti af þeirri vegferð. Við erum að skerpa á hlutverki Greiningar- og ráðgjafastöðvar og markmiðið er að barnið verði hjartað í kerfinu og fái notið þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á og að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og séu ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er unnið í góðu og víðtæku samráði fjölmargra aðila og ég bind miklar vonir við að þessar þörfu breytingar nái fram að ganga.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum