Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynnti tillögur að úrbótum í brunavörnum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun tillögur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum í brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu sem unnar voru í samráði við hagaðila. Ráðherra fól HMS að gera tillögur að úrbótum í málaflokknum í kjölfarið á brunanum við Bræðraborgarstíg í júní 2020, og byggja tillögurnar á niðurstöðum rannsóknar HMS á brunanum, niðurstöðu vinnuhóps á vegum HMS um óleyfisbúsetu og vinnu samráðsvettvangs um brunavarnir. Ráðherra hyggst skipa stýrihóp til þess að fylgja eftir þeim tillögunum sem komu út úr þessari vinnu.

Helstu tillögur að úrbótum eru að tryggt verði að íbúðarhúsnæði sé ekki tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt og að skilgreindar verði sérstakar stöðuskoðanir byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna brunavarna í opinberu byggingareftirliti. Þá verða heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis/aðseturs í íbúðarhúsnæði endurskoðaðar ásamt því að skráningarskylda leigusamninga verði lögfest og mismunandi tegundir útleigu skilgreindar. Einnig er lagt til að óleyfisbúseta verði kortlögð með ítarlegum hætti. Metið verður hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi. Þá er lagt til að heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir verðir endurskoðaðar vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits og að lög um brunatryggingar verði endurskoðuð með það í huga að byggja inn hvata til brunavarna.

Allar tillögurnar má finna í skýrslu um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu

Í samráðsvettvangi HMS um brunavarnir áttu fulltrúa; Alþýðusamband Íslands, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningarmanna, Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag byggingarfulltrúa, byggingarfulltrúaembætti Reykjavíkurborgar, skipulagsfulltrúaembætti Akureyrarbæjar, Þjóðskrá Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja vegna vátryggingarfélaga auk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem jafnframt stýrði vinnu samráðsvettvangsins. 

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er sláandi að sjá hversu margir búa í óöruggu húsnæði á Íslandi og það er mikilvægt að við bætum yfirsýnina og skýrum regluverkið. Í kjölfarið á brunanum á Bræðraborgarstíg þá óskaði ég sérstaklega eftir því við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að þau ynnu heilstæðar tillögur sem hjálpuðu okkur að ná utan um þessi mál. Þær tillögur hef ég nú kynnt í ríkisstjórn og mun fylgja þeim fast á eftir og koma til framkvæmda á því þingi sem nú stendur yfir.”

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum