Hoppa yfir valmynd
30. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði alþjóðlega jarðhitaráðstefnu

Í máli sínu lýsti Guðlaugur Þór hvernig þekking og reynsla Íslendinga í nýtingu jarðhita hefur nýst víðs vegar um heiminn - myndHugi Ólafsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á mikilvægi þekkingar og reynslu Íslendinga í jarðhitamálum í ávarpi sínu á heimsráðstefnu Alþjóðajarðhitasambandsins (e. World Geothermal Congress, WGC) sem hófst í dag. Ráðstefnan er haldin á þriggja ára fresti og átti að fara fram í Hörpu í apríl á síðasta ári en var frestað vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Að þessu sinni verður hún með breyttu sniði og fer fram bæði á vefnum og með þátttöku í Reykjavík 24. til 27. október í haust.

Í máli sínu lýsti Guðlaugur Þór hvernig þekking og reynsla Íslendinga í nýtingu jarðhita hefur nýst víðs vegar um heiminn, bæði með útrás íslenskra fyrirtækja og með áherslu Íslands á jarðhitaverkefni í þróunarsamvinnu í meira en fjóra áratugi. Þá væri þátttaka Íslands í þróun og nýtingu jarðhita í heiminum mikilvægt framlag til baráttunnar við loftslagsbreytingar og þar með að markmiðum Parísarsamningsins verði náð.

„Það eru miklir möguleikar í þróunarríkjunum til þess að auka fæðuöryggi með nýtingu jarðhita og hef ég á alþjóðavettvangi kallað eftir auknum áherslum á grænar fjárfestingar í jarðhitanýtingu til að auka fæðuframleiðslu og draga úr matarsóun,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu.

WGC er stærsta ráðstefna jarðhitasamfélagsins í heiminum og búist var við um þrjú þúsund þátttakendum frá öllum heimsálfum. Opnunarviðburði ráðstefnunnar í dag var streymt á netinu og er hann opinn öllum. Meðal þeirra sem fluttu ávarp við opnunina auk Guðlaugs Þórs, eru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kadri Simson, framkvæmdastjóri orkumála hjá Evrópusambandinu og Andrea Blair, forseti Alþjóðajarðhitasambandsins. Auk vísindamanna taka þátt í ráðstefnunni leiðtogar fyrirtækja og stofnana í orkugeiranum og fulltrúar frá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum.

Fram að ráðstefnunni í Hörpu í október verður tækni- og vísindahluti ráðstefnunnar að þessu sinni á netinu í fjórum viðburðum frá apríl til júlí. Á þessum viðburðum verða yfir þúsund kynningar og fyrirlestrar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira