Hoppa yfir valmynd
31. mars 2021 Innviðaráðuneytið

Breytingar á ýmsum lögum um málefni sveitarfélaga í tilefni af Covid-19

Alþingi samþykkti á föstudaginn var frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingar á ýmsum lögum um málefni sveitarfélaga í tilefni af Covid-19 faraldrinum. Með lögunum er m.a. tryggt að sveitarfélög hafi svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera, sveitarfélögum auðveldað að koma til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins, þannig að sveitarfélög geti sýnt aukinn sveigjanleika við innheimtu, og starfhæfi sveitarstjórna tryggt við óvenjulegar aðstæður, s.s. vegna farsóttar eða náttúruhamfara.

Neyðarástand í sveitarfélagi

Samþykkt var breyting á 131. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem tekið er á neyðarástandi í sveitarfélagi. Með ákvæðinu getur ráðherra sveitarstjórnarmála veitt sveitarfélögum heimild til að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga ef almannavarnarástand ríkir í sveitarfélaginu. Um er að ræða sambærilegt ákvæði og lögfest var í sveitarstjórnarlög síðasta vor en þá var um að ræða bráðabirgðarákvæði sem féll úr gildi sl. áramót.

Ráðherra sveitarstjórnarmála hefur þegar tekið nýja ákvörðun um að veita sveitarfélögum heimild til að víkja frá sömu skilyrðum sveitarstjórnarlaga og áður, þ.m.t. skilyrðum laganna vegna fjarfunda, og mun ný ákvörðun ráðherra gilda frá 1. apríl 2021 til 31. júlí 2021.

Frávik frá jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga

Með lögunum er framlengd heimild fyrir sveitarfélög til að víkja tímabundið frá þeim viðmiðum um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem kveðið er á um í 2. mgr. 64. gr. sveitarstjórnaralaga til ársins 2025, en áður hafði Alþingi samþykkt bráðabirgðarákvæði sem fól í sér heimild til að víkja frá sömu viðmiðum til ársins 2022.

Um er ræða frávik frá jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga sem felur í sér að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B- hluta í reikningsskilum sveitarfélaga skulu ekki vera hærri en sem nemur samanlögðum tekjum á hverjum þriggja ára tímabili og skuldareglu sveitarstjórnarlaga sem felur í sér að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hluta í reikningsskilum sveitarfélaga skulu ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglum tekjum.

Áréttað skal að meginregla sveitarstjórnarréttar um ábyrga fjármálastjórn, sem er m.a. að finna í 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga, heldur gildi sínu þrátt fyrir þau tímabundnu frávik sem nú hafa verið samþykkt. Reglan felur í sér þá almennu reglu að sveitarstjórn skal sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.

Heimildir sveitarfélaga til að beita vægari innheimtuaðgerðum vegna fasteignagjalda

Með lögunum er lögveðstaða fasteignagjalda áranna 2020-2022 lengd úr tveimur árum í fjögur ár auk þess sem sveitarfélögum er veitt heimild til að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur um fasteignagjöld á húsnæði sem er í atvinnurekstri hjá gjaldendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins eða gjaldendum sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við. Er ákvæðunum ætlað að veita sveitarfélögum svigrúm til að beita vægari innheimtuaðgerðum vegna fasteignaskatta.

Athygli er vakin á því að sveitarfélög þurfa að taka almenna ákvörðun um beitingu slíkra úrræða á grundvelli reglna sem þau setja sér sjálf og geta sveitarfélög ákveðið að setja sér reglur sem fela í sér heimild til að lækka eða fella niður dráttarvexti sem þegar hafa fallið til og/eða til að semja við gjaldendur um seinkun á innheimtu fasteignagjalda á grundvelli greiðsluáætlana sbr. 12. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda nr. 150/2019, án þess að dráttarvextir falli á kröfurnar. Þá vill ráðuneytið vekja athygli á umsögn í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um úrræðið en þar segir:

„Nefndin er meðvituð um þau sjónarmið að seinkun á innheimtu fasteignaskatta og ákvarðanir um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta kunna að hafa áhrif á rekstur sveitarfélaga, til að mynda vegna aukinnar lántökuþarfar, en hafa þarf í huga að markmið slíkrar aðgerðar er að aðstoða lífvænleg fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tímabundnu tekjufalli til að halda sjó og tryggja þannig skatttekjur sveitarfélaga til lengri tíma. Er því mikilvægt að árétta að það er hlutverk sveitarstjórna að marka sér stefnu og taka ákvörðun um hvort rétt sé að setja slíkar reglur á grundvelli þess lýðræðislega umboðs sem þeim er veitt til að taka ákvarðanir um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Heimild Lánasjóðs sveitarfélaga til að lána sveitarfélögum vegna rekstrarhalla

Loks er í lögunum kveðið á um tímabundna heimild Lánasjóðs sveitarfélaga til að lána sveitarfélögum, þ.m.t. fyrirtækjum í þeirra eigu sem ekki eru í samkeppnisrekstri, vegna rekstrarhalla á rekstrarárunum 2020-2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum