Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ánægja með aðgerðir stjórnvalda og batnandi fjárhagsstaða fyrirtækja

Mikil ánægja mælist með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19 og meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll næstu mánuði. Mun fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks heldur en fækkun. 

Þetta kemur fram í könnun Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið um viðhorf fyrirtækja til efnahagsaðgerða stjórnvalda. Þetta er í fjórða sinn sem könnunin er framkvæmd á handahófsvöldu úrtaki fyrirtækja með fjóra starfsmenn eða fleiri. Aukin þreyta á takmörkunum innanlands mælist hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna en fleiri eru sáttir við fyrirkomulag á landamærum. Ánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 jókst frá því í haust og fleiri fyrirtæki telja sig nú standa fjárhagslega vel til að takast á við áföll á næstu mánuðum í kjölfar COVID-19.

 

Fjárhagsstaða fyrirtækja batnar og helmingur þeirra sem standa illa hafa hvorki nýtt sér greiðslufresti né stuðningslán

Meirihluti fyrirtækja telur sig standa fjárhagslega vel til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum í kjölfar COVID-19. Hlutfallið hefur aldrei mælst hærra í könnun Gallup. Rétt yfir 20% fyrirtækja telja sig standa illa til að takast á við áföll, en þar var hlutfallið hæst hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu þó það mældist einnig nokkuð hátt hjá fyrirtækjum í iðnaði. Minni fyrirtækin töldu sig frekar í vondri fjárhagsstöðu en þau stærri. Það sama gildir um fyrirtæki með fáa eða enga starfsmenn á skrifstofu, litla ársveltu og þau sem hafa þurft að fækka starfsfólki í kjölfar COVID-19. Aðeins um helmingur þessara fyrirtækja hefur nýtt sér úrræði hjá aðalviðskiptabanka, s.s. greiðslufrest eða stuðningslán.

 

Ánægja með aðgerðir stjórnvalda eykst

Ánægja með efnahagsaðgerðirnar jókst í byrjun árs 2021 í samanburði við haustmánuði 2020. Nú voru 60% svarenda ánægðir með aðgerðirnar en 15% óánægðir og um fjórðungur hvorki né (sjá niðurstöður á mynd ofar). Mest óánægja mældist hjá fyrirtækjum í útgerð/fiskvinnslu, ferðaþjónustu og í iðnaði, þó meirihluti fyrirtækjanna í þeim atvinnugreinum mælist ánægður með efnahagsaðgerðir stjórnvalda.

Margir telja stuðning stjórnvalda skilvirkan og kröftugan, að stjórnvöld hafi sýnt ábyrgð og dregið úr óvissu með góðu upplýsingaflæði. Helsta gagnrýni innan ferðaþjónustunnar snýr að seinagangi í framkvæmd úrræðanna, en þegar könnunin var gerð höfðu orðið tafir á umsóknarferli fyrir viðspyrnu- og tekjufallsstyrki hjá Skattinum. Fyrirtæki í iðnaði gagnrýna skort á úrræðum fyrir fyrirtæki utan ferðaþjónustu og innan annarra greina ber á áhyggjum af miklum halla ríkissjóðs og kostnaði skattgreiðenda í framtíðinni.

Óánægja með efnahagsaðgerðir stjórnvalda fór gjarnan saman við kröfu um tilslakanir á takmörkunum innanlands og óánægja var mest hjá fyrirtækjum í slæmri fjárhagslegri stöðu. Aðeins tæpur helmingur fyrirtækjanna sem sögðu sig óánægð með aðgerðir stjórnvalda höfðu sótt um úrræði hjá aðalviðskiptabanka vegna COVID-19.

Í heildina þótti helmingi fyrirtækjanna hlutabótaleiðin og greiðsla launa á uppsagnarfresti gagnlegustu úrræðin. Þetta átti sérstaklega við meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þá höfðu 10% af fyrirtækjunum sótt um úrræði hjá viðskiptabanka vegna COVID-19, en algengast var þar að fyrirtæki nýttu sér greiðslufrest. Ríflega helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu fékk greiðslufrest en hlutfallið var talsvert lægra í öðrum atvinnugreinum. Afar fá fyrirtæki höfðu sótt um úrræði en ekki fengið, eða 0,7% af heildinni.

Fleiri fyrirtæki sjá fram á fjölgun starfsfólks en fækkun

Fjórðungur fyrirtækja í könnuninni hefur þurft að fækka starfsfólki sökum heimsfaraldurs COVID-19, sem er álíka hátt hlutfall og í fyrri könnunum Gallup. Uppsagnir áttu sér stað hjá nánast öllum ferðaþjónustufyrirtækjunum í könnuninni, nær 30% fyrirtækja starfandi í iðnaði og 20% fyrirtækja í verslun og þjónustu.

Mun fleiri forsvarsmenn telja nú að starfsfólki í fyrirtækinu fjölgi á næstu 3 mánuðum en að þeim fækki. Um 27% töldu að starfsfólki myndi fjölga nokkuð en hlutfallið var aðeins 12% þegar könnunin var framkvæmd í okt-nóv 2020. Fjölgun starfsfólks er vænst í hluta fyrirtækja í öllum atvinnugreinum en þó hlutfallslega mest í iðnaði og veitustarfsemi. Aðeins tæp 5% fyrirtækja töldu að starfsfólki muni fækka nokkuð á næstu 3 mánuðum. Helst yrði það hjá fyrirtækjum í framleiðslu, flutningum, upplýsinga- og fjarskiptastarfsemi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum