Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Greinargerð skilað til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna

Ágúst Flygenring og Hildigunnur Engilbertsdóttir frá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (hægra megin á myndinni) afhenda fulltrúum landgrunnsnefndarinnar greinargerðina - myndSameinuðu þjóðirnar
Íslensk stjórnvöld hafa skilað endurskoðaðri greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kveðst vongóður um að landgrunnsnefndin fallist á röksemdir Íslands í málinu.  

Greinargerðin felur í sér endurskoðaða kröfugerð Íslands um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna. Greinargerðin nær til landgrunns á vestur-, suður- og suðausturhluta Reykjaneshryggjar suðvestur af landinu, en ekki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Vísindarannsóknir og undirbúningur hófst í lok síðasta árs fyrir þá greinargerð og verður unnið að því verkefni næstu ár.

„Ég bind miklar vonir við að landgrunnsnefndin fallist á röksemdir Íslands í þessu mikilvæga hagsmunamáli enda byggist greinargerðin á vandaðri vinnu okkar helstu sérfræðinga á þessu sviði. Hún grundvallast á sameiginlegum jarðfræðilegum skilningi sem skapaðist um afmörkun þess svæðis Reykjaneshryggjar sem er undir sterkum áhrifum frá heita reitnum undir Íslandi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Ísland afhenti árið 2009 greinargerð vegna vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar, ásamt fleiri svæðum, og skilaði landgrunnsnefndin tillögu sinni vegna þeirrar greinargerðar árið 2016. Nefndin féllst á ytri mörk vestur af Reykjaneshrygg innan 350 sjómílna, en taldi hins vegar að fyrirliggjandi gögn væru ekki nægilega afgerandi fyrir svæðið utan 350 sjómílna til að styðja með óyggjandi hætti kröfur Íslands um að Reykjaneshryggurinn teljist náttúrulegur hluti landgrunnssvæðisins. 

Í ljósi þessarar niðurstöðu landgrunnsnefndarinnar hefur starfshópur undir stjórn utanríkisráðuneytisins unnið að endurskoðaðri greinargerð fyrir Reykjaneshrygg síðustu árin, en tæknileg vinna var að stærstum hluta unnin af Íslenskum orkurannsóknum og með aðkomu jarðvísindamanna í háskólasamfélaginu. Vinnan miðaði að því að styrkja jarðfræðilegar röksemdir Íslands, ásamt því að afmarka ytri mörk landgrunnsins á suðausturhluta Reykjaneshryggjar til að gefa betri heildarmynd af því svæði sem er undir áhrifum frá heita reitnum undir Íslandi. Þeirri vinnu er nú lokið og greinargerðin sem nú er skilað til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna er afrakstur hennar. 

Þar sem um endurskoðaða greinargerð er að ræða verður hún tekin fyrir af landgrunnsnefndinni við fyrsta tækifæri. Tillagna nefndarinnar er hins vegar ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira