Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vegna umfjöllunar um úthlutun tollkvóta

Í tilefni af umfjöllun um erindi Félags atvinnurekenda til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um nýlegan dóm Landsréttar um úthlutun tollkvóta vill ráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.

 

Föstudaginn 19. mars sl. féll dómur í Landsrétti í máli nr. 739/2019 er varðar fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta. Í málinu krafðist stefnandi endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðaravörum árið 2018. Íslenska ríkið hafði áður verið sýknað í héraðsdómi Reykjavíkur þann 1. nóvember 2019. Í dómi Landsréttar kemur fram að ráðherra hefði á því tímabili sem málið tók til haft heimildir í 3. mgr. 65. gr. búvörulaga til að setja ákvæði í reglugerð um það hvernig velja skyldi á milli þeirra sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð, eða aðra fjárhæð, skyldi miða hið álagða gjald. Taldi dómurinn að 3. mgr. 65. gr. búvörulaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar og féllst því á endurgreiðslukröfu stefnanda vegna oftekinna gjalda fyrir tollkvóta.

Haustið 2019 lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á búvörulögum og tollalögum. Í frumvarpinu, sem Alþingi samþykkti 17. desember 2019, var m.a. gerð breyting á 3. mgr. 65. búvörulaga þannig að kveðið var með mun skýrari hætti á um það hvernig sú fjárhæð sem tilboðsgjafar þurfa að inna af hendi vegna tollkvóta er ákveðin. Þá kemur fram í tímabundnu bráðabirgðaákvæði því sem tók gildi sl. desember að verð tollkvóta ráðist af fjárhæð tilboða hverju sinni. Kvótanum verði fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hafi verið úthlutað.

Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að nú sé kveðið á um það með skýrum hætti í lögunum hvernig útboði skuli háttað og ákvæðið sé eftir breytingarnar 2019 í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki sé því þörf á lagabreytingum til að bregðast við dómi Landsréttar. Í dómi Landsréttar er raunar sérstaklega vísað til framangreindra lagabreytinga og þess að eftir breytingarnar sé með skýrum hætti kveðið á um skattskyldu þeirra sem fá úthlutað tollkvóta, en í dómi Landsréttar segir:

„Eftir  þær  breytingar  á  ákvæði  3.  mgr.  65.  gr.  búvörulaga, [ …]  er  með  skýrum  hætti  kveðið  á  um  skattskyldu  þeirra  sem  fá  úthlutað tollkvóta, auk þess sem úthlutaður tollkvóti er þar skilgreindur sem skattstofn. Er atvik máls þessa áttu sér stað var aftur á móti enn aðeins kveðið á um það í 3. og 5. mgr. 65.  gr.  laganna  að  tollkvótar  skyldu  boðnir  út  og  að  ráðherra  setti  nánari  reglur  um úthlutunina í reglugerð.“

Varðandi framhald málsins vísar ráðuneytið til þess að það er ríkislögmanns að taka ákvörðun um hvort óskað verði eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum