Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Frumvarp um alþjóðlega skipaskrá í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til nýrra laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 21. apríl nk. Markmiðið með frumvarpinu er að móta samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir kaupskipaútgerð, stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi og bregðast við alþjóðlegri samkeppni um slíkar skráningar. Ekkert kaupskip hefur verið skráð á Íslandi frá árinu 2004. 

Helsti ávinningur þess að kaupskip sigli undir íslenskum fána og falli undir íslensk lög eru að tryggja vöruflutninga til og frá landinu og viðhalda eftirspurn eftir skipstjórnarmönnum, siglingaþekkingu og reynslu hér á landi.

Nýjum lögum er ætlað að koma í stað eldri laga frá 2007 um íslenska alþjóðlega skipaskrá (nr. 38/2007). Alþjóðleg skipaskrá yrði áfram aðskilin frá almennri skipaskrá, en um hana gilda lög um skráningu skipa (nr. 115/1985). 

Frumvarpið byggir að meginstefnu til á gildandi lögum en ný ákvæði bætast við til að ná því markmiði að kaupskip verði skráð á Íslandi. Þar má nefna ákvæði að um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fari eftir kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Sá fyrirvari er gerður að kjör og réttindi skipverja verði aldrei lakari en þau sem mælt er fyrir um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um vinnuskilyrði farmanna frá árinu 2006 (MLC 2006) og Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) miðar við á hverjum tíma. Um er að ræða sambærilegt ákvæði og gilda í nágrannaríkjum Íslands. Þannig er t.d. í Noregi starfrækt alþjóðleg skipaskrá (Norsk Internasjonalt Skipsregister, NIS) og samkvæmt þarlendum reglum er heimilt að greiða erlendum áhafnarmeðlimum laun samkvæmt kjarasamningum í heimalandi þeirra. Ljóst þykir að ef ætlunin er að fá kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá er nauðsynlegt að lög hafi að geyma sambærileg ákvæði. 

Samhliða þessu frumvarpi er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra mæli fyrir um frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipaútgerða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira