Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði ráðstefnu þingmannanefndar norðurslóða

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - myndHaraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra gerði grein fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu síðastliðin tvö ár og sat fyrir svörum á tveggja daga ráðstefnu á vegum norska þingsins þar sem þingmannanefnd norðurslóða kom saman. Ráðstefnunni lauk í dag en hún fór að mestu fram með rafrænum hætti vegna heimsfaraldursins.

Í opnunarerindi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á að þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi geisað stóran hluta af formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu með tilheyrandi takmörkunum væru flest formennskuverkefni Íslands á áætlun. Má þar helst nefna alþjóðlega ráðstefnu um plastmengum í höfum sem Ísland hélt í marsmánuði með rafrænni þátttöku sérfræðinga og vísindamanna.

„Heimsfaraldurinn hefur dregið fram aðlögunarhæfni og útsjónarsemi íbúa norðurslóða sem hefur hjálpað þeim að takast á við erfiðar aðstæður,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í erindi sínu en hefð er fyrir því að sitjandi formaður Norðurskautsráðsins líti yfir farinn veg og gefi skýrslu um formennskuverkefni og viðburði.

„Við getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð á formennskutímabili okkar þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum,“ sagði Guðlaugur Þór. Í því samhengi minntist ráðherra á mikilvægi skýrslu vinnuhóps Norðurskautsráðsins um stöðu faraldursins á norðurslóðum, áhrif hans og aðgerðir sem ráðist var í á svæðinu.

Guðlaugur Þór lagði einnig sérstaka áherslu á þann góða árangur sem náðst hefur í norðurslóðasamstarfi og hvernig tryggja megi áframhaldandi samvinnu þvert á landamæri. Þar væri Norðurskautsráðið einstaklega góður og mikilvægur vettvangur þar sem vísindasamstarfi og sjálfbærri þróun er haldið á lofti.

Ráðstefna þingmannanefndar norðurslóða er haldin annað hvert ár og þar koma saman þingmenn norðurskautsríkjanna átta auk þingmanna Evrópuþingsins og fulltrúa frumbyggja svæðisins ásamt áheyrnaraðilum á vegum stjórnvalda og öðrum þingmannasamtökum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum