Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2021 Dómsmálaráðuneytið

Mælt fyrir fjórum frumvörpum um refsingar, kosningar, hatursorðræðu og bætta réttarstöðu brotaþola

Dómsmálaráðherra mælti fyrir fjórum frumvörpum á Alþingi í gær. Um er að ræða frumvörp sem heimila rafræn meðmæli fyrir Alþingiskosningar á Covidtímum, afnám undanþáguheimilda fyrir hjúskap yngri en 18 ára, um rýmkun hatursorðaákvæðis og um hámarksrefsinga vegna barnaníðs og betrumbætur í réttarstöðu brotaþola.

Rafræn meðmæli fela í sér breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Lagðar eru til breytingar svo safna megi meðmælendum með framboðum og listabókstöfum með rafrænum hætti. Einnig er lagt til að unnt sé rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst bjóða sig fram geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð. Þá eru lagðar til breytingar svo unnt verði að gera þeim sem eru í sóttkví kleift að greiða atkvæði utan kjörfundar.

Breytingar á hjúskaparlögum fela í sér að lagt er til að  afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingur yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap. Einnig er lagt til að lögfesta meginreglu um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Markmið breytinganna er að samræma hjúskaparlögin alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til þess að ganga í hjúskap. Að bæta gæði könnunar á hjónavígsluskilyrðum og samræma framkvæmdina. Að bregðast við gagnrýni á gildandi löggjöf um lögsögu í skilnaðarmálum og að samræma lögin þeim reglum sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndunum.

Frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum lýtur að barnaníðsefni, hatursorðræðu, mismunun o.fl..

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga.

Í fyrsta lagi er lagt til að við ákvörðun hegningar, sbr. 70. gr. laganna, beri að taka til greina hvort brot megi rekja til nánar tilgreindra atriða er varða brotaþola persónulega og brot sé þannig af meiði hatursglæpa, auk þess sem lagt er til að að jafnaði skuli taka það til greina til þyngingar refsingu ef brot er framið í nærveru barns yngra en 15 ára.

Í öðru lagi, og nátengt fyrsta atriðinu, er lagt til að hatursorðræðuákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga verði rýmkað þannig að þjóðlegur uppruni (e. ethnic origin) falli ótvírætt þar undir sem og að ákvæðið veiti fólki með fötlun og fólki með ódæmigerð kyneinkenni refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda.

Í þriðja lagi er lögð til hliðstæð breyting á 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga þannig að sömu hópar njóti verndar samkvæmt því ákvæði og 233. gr. a. Með því verður m.a. refsivert að neita einstaklingi með fötlun um vöru eða þjónustu til jafns við aðra.

Í fjórða lagi er lagt til að barnaníðsákvæði 210. gr. a laganna verði skipt upp í fjórar málsgreinar. Í efnislýsingu komi fram skilgreining á barnaníði og hámarksrefsing verði hækkuð, en jafnframt kveðið á um að ákvæðið taki ekki til persónulegra samskipta ungmenna að nánari skilyrðum uppfylltum.

Loks er í fimmta lagi lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 210. gr. c, um innbyrðis ítrekunartengsl barnaníðsákvæðanna, þ.e. 210. gr. a og 210. gr. b.

Fjórða frumvarpið lýtur að breytingum á lögum um meðferð sakamála. Lagðar eru til þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi er með frumvarpi þessu leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð tiltekinna sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar með það fyrir augum að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð mála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í þriðja lagi þá er gert ráð fyrir að bæta réttarstöðu aðstandenda látins brotaþola í þeim tilvikum sem rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans. Markmið breytinganna eru að bæta réttarstöðu brotaþola og fatlaðra sem og aðstandenda látinna einstaklinga hvort heldur á rannsóknarstigi hjá lögreglu eða fyrir dómstólum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum