Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi sem takmarkar gestaflutninga við tíu daga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í vikunni fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Frumvarpið felur í sér tvenns konar breytingar á lögunum. Annars vegar breytingar sem snúa að skilgreiningum á tímabundnum farþegaflutningum (gestaflutningum) hér á landi og eftirliti með þeim. Hins vegar að breytingar semopna fyrir skilvirkari leiðir við greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum með það að markmiði að efla þjónustu við notendur.

Tímabundnir gestaflutningar verði að hámarki í 10 daga

Flutningafyrirtæki innan EES hafa leyfi til að stunda farþegaflutninga með ferðamenn hér á landi tímabundið samkvæmt reglugerð ESB sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Með frumvarpinu er lagt til að skýrri skilgreiningu á slíkum tímabundnum gestaflutningum verði bætt við lögin. 

Verði þannig kveðið á um að þessa gestaflutninga megi að hámarki stunda í 10 samfellda daga í hverjum almanaksmánuði en slík skýr tímamörk skortir í dag. Þá verði bætt við lögin ákvæðum um eftirlit með tímabundnum gestaflutningum og um viðurlög við brotum gegn þeim reglum sem um slíka flutninga gilda.

Greiðsla fargjalda gerð skilvirkari

Frumvarpinu er einnig ætlað að opna fyrir og styðja við skilvirkari leiðir við greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum. Greiðsla þeirra hefur í auknum mæli færst frá því að farþegar greiði fargjald hjá vagnstjóra yfir í fyrirframgreidd kort eða rafrænar lausnir. Eftirlit með greiðslu fargjalda er þó enn að mestu í höndum vagnstjóra. 

Markmiðið er að farþegar geti stigið inn í vagna um hvaða dyr sem er og þurfi ekki að sýna vagnstjóra fram á greiðslu fargjalds. Slíkt fyrirkomulag er til þess fallið að efla þjónustu við farþega, stytta biðtíma á biðstöðvum og auka skilvirkni.

Í frumvarpinu er fjallað um grundvallaratriði um skyldur farþegar og heimildir flytjenda. Kveðið er á um skyldu farþega til að framvísa gildum farmiða og rétt flutningsaðila til að sannreyna að fargjald hafi verið greitt. Með nýjum ákvæðum verður eftirlitsmönnum heimilt að sannreyna greiðslu farþega með slembiúrtaki. Einnig er heimild veitt til að vanræksluálag á farþega sem ekki geta sýnt fram á greiðslu fargjalds og skýr ákvæði um endurskoðun slíkra ákvarðana. Slíkt fyrirkomulag er við lýði víðast hvar í nágrannalöndunum.

„Ég tel að þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til séu mikilvægar til að skýra regluverk um tímabundna gestaflutninga sem flutningsaðilar staðsettir í öðrum EES-ríkjum stunda hér á landi. Þá eru þær einnig til þess fallnar að greiða fyrir skilvirkari lausnum í greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í framsöguræðu sinni á Alþingi um frumvarpið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira