Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð

Keflavíkurflugvöllur - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti í vikunni fyrir frumvarpi að nýjum heildstæðum lögum um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð. Frumvarpið felur í sér einföldun regluverks og er ætlað að draga fram verkefni stjórnvalda á þessu sviði með skýrari hætti en áður.

Meginmarkmið frumvarpsins er að flugvellir landsins og þjónusta við flugumferð þjóni þörfum samfélagsins með skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í fyrirrúmi í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, eins og hún birtist m.a. í flugstefnu og samgönguáætlun. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að Isavia ohf. annist að meginstefnu til þessi verkefni f.h. ríkisins á grundvelli þjónustusamninga.

Verði frumvarpið að lögum munu þau koma í stað úreltra laga á þessu sviði: Lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, nr. 102/2006, lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar nr. 76/2008 og lög um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar nr. 153/2009.

Almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu munu áfram fara samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Frumvarp til nýrra heildarlaga um loftferðir hefur einnig verið lagt fram á Alþingi og er í þinglegri meðferð.

„Skýrt og uppfært lagaumhverfi á þessu sviði muni styðja við hagkvæman rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu og stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda á þessu sviði.,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í framsöguræðu sinni á Alþingi um frumvarpið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum