Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ræddu um Norðurlöndin sem fyrirmynd í að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti ávarp á fundinum. - mynd

Stjórnvöld um allan heim gegna mikilvægu hlutverki í því að flýta fyrir nauðsynlegum orkuskiptum í samgöngum, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu á rafrænum viðburði World Resources Institute og norrænna sendiráða í Washington í dag. Umfjöllunarefni fundarins var græn umskipti í samgöngum, leiðir Norðurlandanna að því marki og möguleikar Bandaríkjanna til þess að draga af þeim lærdóm.  

Viðburðurinn er hluti af loftslagsviku Hvíta hússins en auk Guðmundar Inga tóku þátt Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Timo Harakka, samgöngumálaráðherra Finnlands, Polly Trottenberg, nýskipaður aðstoðarsamgönguráðherra Bandaríkjanna, sem og forsvarsmenn bílaframleiðendanna Volvo og General Motors. Íslendingar eru nú í 2. sæti í heiminum varðandi nýskráningu rafbíla á íbúa, á eftir Noregi.

Guðmundur Ingi sagði vegasamgöngur vera eina helstu uppsprettu útblásturs koldíoxíðs og því mikilvægt að rafbílum fari fjölgandi.  „En við þurfum meira. Við verðum að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir hreinni orkugjafa í samgöngum – og á öðrum sviðum,“ sagði ráðherra og kvað þetta þurfa að gerast á áður óþekktum hraða.

Mannkynið hafi ekki efni á að tapa kapphlaupinu um umhverfisvænni farartæki  því loftslagsvandinn sé stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir.

Engin ríki standi Íslandi framar þegar kemur að hreinum orkugjöfum og það megi þakka þeirri stefnu stjórnvalda að nýta jarðhita til húshitunar. Nú þrýsti íslensk stjórnvöld á um sambærilegar breytingar í samgöngum með styrkjum og skattaívilnunum til hreinorkubíla og innviðauppbyggingar fyrir rafrænar samgöngur.  Áhrifin hafi heldur ekki látið á sér standa því hleðslustöðvar hafi risið víða og hratt og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi rúmur helmingur seldra bíla verið rafbílar – hreinir rafbílar eða tengiltvinnbílar. Benti Guðmundur Ingi á að á þessum tíma hafi 67% seldra bíla fallið í flokk hreinorkubíla. Árið 2020 var hlutfallið 60% sem var stórt stökk frá 2019 þegar hlutfallið var 28%. „Þannig að við erum að sjá hraða og afgerandi breytingu í þessum efnum,” sagði hann.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira