Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfir tveir milljarðar króna greiddir í viðspyrnustyrki

Yfir tveir milljarðar króna hafa verið greiddir í viðspyrnustyrki sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila, þ.m.t. einyrkja, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þann 14. apríl hafði Skattinum, sem fer með framkvæmd úrræðisins, borist um 2.050 umsóknir um styrkina og höfðu um 1.740 verið afgreiddar.

Þá hafa nú um 9,5 milljarðar króna verið greiddir í tekjufallsstyrki til rekstraraðila og um 2, 3 milljarðar króna í lokunarstyrki.

Síðustu mánuði hafa ríflega 80 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Á fimmta þúsund rekstraraðilar og nær fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.

Sem dæmi hafa um 9,5 milljarðar króna verið veittir í stuðningslán til um 960 rekstraraðila en lánunum er ætlað að styðja við smærri fyrirtæki sem glíma við erfiðleika. Lánin nýtast litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti.

Þá hafa um sjö milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti (VSK) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög.

Flest þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins eru með tíu launamenn eða færri. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum