Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2021 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir heildarlögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Með frumvarpinu er lögð til sameining á löggjöf um umhverfismat framkvæmda og löggjöf um umhverfismat áætlana.

Sameining löggjafarinnar felur í sér aukinn skýrleika og betri yfirsýn, þar sem megininntak umhverfismats framkvæmda og áætlana er það sama. Verði frumvarpið að lögum verður málsmeðferð vegna umhverfismats framkvæmda líkari því sem þekkist í nágrannaríkjum Íslands.

Frumvarpið var unnið af starfshópi umhverfis- og auðlindaráðherra sem í áttu sæti, auk formanns, fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og Skipulagsstofnun, en við vinnslu frumvarpsins var mikil áhersla lögð á víðtækt samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila.

Verkefni starfshópsins var heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum með það að markmiði að auka skilvirkni í ákvarðanatöku og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins.

Í frumvarpinu er að finna ýmis nýmæli í málsmeðferð umhverfismats. Meðal annars valkvætt forsamráð framkvæmdaaðila og stjórnvalda um ferli framkvæmdar. Þá er gert ráð fyrir notkun rafrænnar gáttar fyrir umhverfismat, skipulagsmál og leyfisveitingar. Reglur um málskot eru enn fremur einfaldaðar og heildarferli umhverfismats stytt frá núgildandi lögum m.a. með því að fallið er frá kröfu um frummatsskýrslu. Er þetta í samræmi við löggjöf nágrannaþjóða.

Lagðir eru til endurskoðaðir framkvæmdaflokkar með skýrleika í huga til að draga úr vafatilfellum um það hvaða framkvæmdir falli undir lögin. Samhliða er framkvæmdaflokkunum fækkað úr þrem í tvo þar sem fallið er frá notkun C-flokks framkvæmda þ.e. að framkvæmdir séu tilkynningarskyldar óháð stærð og staðsetningu. Framkvæmdaaðili eða leyfisveitandi getur einnig óskað álits Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar að hluta eða í heild óháð þeim tíma sem liðinn er frá gerð álitsins. Þá er í frumvarpinu lagt til að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar verði bindandi gagnvart leyfisveitanda og er það í samræmi við tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda. 

Frumvarp til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum