Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þórdís Kolbrún kynnir Vörðu: Heildstæð nálgun áfangastaðastjórnunar

Þórdís Kolbrún kynnti Vörðu á streymisfundi - myndGolli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar: Vörðu. Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón.

Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

„Heitið Varða byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður eru vel þekktar og  hluti af ímynd Íslands. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið og jafnframt að vera öðrum áfangastöðum fyrirmynd um stjórnun, umsjón, skipulag, aðbúnað, þjónustu, náttúruvernd, öryggi og annað sem varðar móttöku ferðamanna.“ 

Þeir áfangastaðir sem verða að Vörðum eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja heim allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði o.fl.

Vörður geta verið staðir þar sem töluverðir innviðir eru þegar til staðar. Þar geta verið takmarkaðir möguleikar á því að breyta því sem þegar hefur verið framkvæmt sem og mynstur ferðahegðunar. Miklir efnahagslegir hagsmunir geta verið til staðar sem hafa byggst upp yfir tíma. Því er oft meiri áskorun (tæknilega, fjárhagslega og menningarlega) og tímafrekara að þróa þá í átt að Vörðum.

Vörður geta hins vegar líka verið staðir þar sem takmarkaðir eða engir innviðir eru til staðar. Á slíkum stöðum er tækifæri til að stýra þróuninni í sjálfbæra átt frá fyrstu stigum og byggja upp fjölbreytta upplifun með næmni fyrir staðaranda.  

Til stendur að verja 700 milljónum í verkefnið að svo stöddu, 300 milljónum króna árið 2021 og 200 milljónum árin 2022 og 2023.

Stefnt er að því að á árinu 2022 verði opnað á að fleiri staðir um landið, m.a. staðir í eigu einkaaðila, geti sótt um aðild að kerfinu.

Ráðherra kynnti kerfið, nýtt heiti og markaðsnafnið Vörðu á kynningarfundi í dag. Brandenburg hannaði vörumerkið. Hér má horfa á kynningu ráðherra.

 

 

Hönnun merkisins byggir á sömu grunnstoðum og vörðurnar sjálfar. Í grunninn sýnir merkið form vörðu og táknar jafnvægi náttúru og mannvirkja, með vísun í íslenska arfleifð og mynstur. Áhersla var lögð á að merkið endurspeglaði sögu og sérstöðu þeirra ólíku merkisstaða á Íslandi sem geta með tíð og tíma orðið Vörður. Hver varða er sjálfstæð en jafnframt hluti af heild sem varðar leið að áfangastað. Úr varð einstakt merki sem er í senn tímalaust, táknrænt og íslenskt. Varða er samstarfsverkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum