Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

​COVID 19: Hertar kröfur um sóttkví komufarþega með hliðsjón af stöðu faraldursins í einstökum löndum

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 tekur gildi þriðjudaginn 27. apríl næstkomandi. Með reglugerðinni er innleidd skylda komufarþega til að dvelja í sóttvarnahúsi komi þeir frá löndum þar sem nýgengi COVID-smita er yfir tilteknum mörkum sem skilgreind eru í reglugerðinni. Birt verður auglýsing í Stjórnartíðindum með lista yfir þau lönd sem um er að ræða á hverjum tíma en stjórnvöld munu endurmeta listann eftir því sem efni standa til.

Ákvæði reglugerðarinnar sem lúta að skyldudvöl í sóttvarnahúsi eru sett með stoð í lögum nr. 23/2021 um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi 22. apríl síðastliðinn. Lagabreytingin felur m.a. í sér ákvæði til bráðabirgða sem heimilar heilbrigðisráðherra að setja reglugerð sem skyldar ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Ákvæði reglugerðar heilbrigðisráðherra um skilgreiningu hááhættusvæða skal byggja á tillögu sóttvarnalæknis.

Helstu breytingar sem taka gildi frá og með þriðjudeginum 27. apríl

Þeim sem koma frá skilgreindum hááhættusvæðum verður skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi nema fyrir liggi undanþága frá sóttvarnalækni. Slík undanþága kemur ekki til greina komi fólk frá svæðum eða löndum þar sem 14 daga nýgengi smita er 700 eða meira á hverja 100.000 íbúa. Til hááhættusvæða telja þau svæði eða lönd þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er 500 eða meira eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir.

Skilyrðislaus sóttkví í sóttvarnahúsi: Farþegar sem koma frá svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita er 700 eða meira á hverja 100.000 íbúa þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi meðan beðið er seinni skimunar eftir komunnar til landsins.

Sóttkví í sóttvarnahúsi með möguleika á undanþágu: Farþegar sem koma frá svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita er á bilinu 500 til 700 á hverja 100.000 íbúa þurfa að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi nema sóttvarnalæknir veiti undanþágu frá þeirri skyldu. Sækja þarf um slíka undanþágu að lágmarki tveimur sólarhringum fyrir komuna til landsins.

Heimasóttkví: Þeim sem koma frá svæðum þar sem 14 daga nýgengi smita er innan við 500 á hverja 100.000 íbúa er heimilt að vera í sóttkví á eigin vegum, geti þeir uppfyllt skilyrði sóttvarnalæknis um heimasóttkví.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum