Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

​Ný skýrsla: Greining á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila

     - myndStjórnarráðið

Verkefnastjórn sem heilbrigðisráðherra skipaði til að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila hefur skilað ráðherra skýrslu sinni. Greiningin byggist einkum á svörum rekstraraðila um reksturinn, kostnaðar- og tekjuliði, þjónustuna sem veitt er, notendur þjónustunnar, auk ýmissa fleiri breyta sem áhrif hafa á reksturinn.

Verkefnastjórnin var skipuð af ráðherra í samræmi við samkomulag sem gert var í lok árs 2019 milli Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þegar undirritaðir voru samningar um þjónustu hjúkrunarheimila til tveggja ára. Voru aðilar sammála um að vinna sameiginlega á samningstímanum að greiningu á raungögnum um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Verkefnastjórnina skipuðu Gylfi Magnússon, formaður, Anna Björg Aradóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, Gísli Páll Pálsson, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Halldór Jónsson, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands og Valgerður Freyja Ágústsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Greiningin nær yfir gögn frá árinu 2017 og fram á mitt ár 2020. Upphaflega stóð til að hún tæki til reksturs allra hjúkrunarheimila en verkefnisstjórnin hvarf frá því og var ákveðið að horfa einkum til  hjúkrunarheimila sem rekin eru fyrir daggjöld. Svör bárust frá 40 slíkum, þar af 19 sem rekin eru af sveitarfélögum og 21 hjúkrunarheimili sem rekið er á félagaformi, þ.e. af sjálfseignarstofnunum, einkahlutafélögum eða félagasamtökum. Greiningin nær því ekki til hjúkrunarheimila sem rekin eru sem hluti af heilbrigðisstofnunum á föstum fjárlögum.

Nokkur munur er á hjúkrunarheimilum og íbúum þeirra eftir landshlutum. Heimilin eru flest stærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og þar er elsti hópurinn hlutfallslega fjölmennastur og hjúkrunarþyngd meiri en annars staðar. Stærri heimilin á höfuðborgarsvæðinu ráða betur við mikla hjúkrunarþyngd en þau sem eru lítil og á stóru heimilinum er jafnframt best aðgengi að sérhæfðri læknisþjónustu segir í skýrslunni. Fram kemur að nokkur munur er á rekstrarkostnað fyrir hvert hjúkrunarrými eftir stærð heimila og er hann mestur hjá stærstu heimilunum. Að mati skýrsluhöfunda skýrist það af meiri hjúkrunarþyngd íbúa á þessum heimilum en hjá litlum heimilum.

Tekjur

Langstærstur hluti tekna heimilanna er vegna daggjalda frá ríkinu eða 84% árin 2017 til 2019. Að auki námu greiðslur húsnæðisgjalds frá ríki 6%. Þriðji stærsti liðurinn var kostnaðarþátttaka íbúa, 4%, og sá fjórði framlög sveitarfélaga, 3%. Tekjur á hvert rými eru nokkuð misjafnar en það skýrist fyrst og fremst af hjúkrunarþyngd. Að meðaltali voru tekjur á hvert rými 13,9 milljónir króna á ári.

Gjöld

Rekstrargjöld heimila sem fá daggjaldagreiðslur voru samtals 31,1 milljarðar króna árið 2019. Langstærsti útgjaldaliðurinn var launagreiðslur og voru laun og launatengd gjöld 24,0 milljarðar króna eða 77% af heildarrekstrarkostnaði heimilanna. Önnur rekstrargjöld skiptust á fjölmarga liði og var húsnæðiskostnaður stærstur þeirra, 2.830 milljónir króna, og stoðþjónusta næststærsti liðurinn, 2.488 milljónir króna.

Rekstur

Skýrsluhöfundar segja að rekstur heimilanna hefur gengið misvel þau ár sem voru til skoðunar en flest þeirra hafa þó verið rekin með halla. Samtals voru heimilin rekin með halla sem var frá 200 og upp í 700 milljónir króna á ári, minnstur árið 2018 en svipaður árin 2017 og 2019.

Ekki greint á milli heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu

Í erindisbréfi var verkefnastjórninni falið að greina kostnað við rekstur hjúkrunarheimila eftir því hvort um félagslega þjónustu eða heilbrigðisþjónustu sé að ræða. Sú skipting er m.a. mikilvæg vegna verka- og kostnaðarskiptingar á milli ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Félagsleg þjónusta við aldraða telst þannig verkefni sveitarfélaga en heilbrigðisþjónusta verkefni ríkisins. Eftir skoðun var það niðurstaða verkefnastjórnarinnar að ekki væri með góðu móti hægt að greina þarna á milli og því fallið frá því að ráðast í þann verkþátt erindisbréfsins.

Mikilvæg gögn til að ákveða næstu skref

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þá greiningu sem skýrslan birtir fela í sér mikilvæg gögn til að byggja á næstu skref. „Það gengur ekki að hjúkrunarheimilin séu vel flest rekin með halla og ljóst að það verður að taka á því með einhverjum hætti. Nú þarf að leggjast yfir gögnin með það í huga en á þessu ári erum við auðvitað bundin af fjárlögum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum