Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Aðlögun að loftslagsbreytingum í brennidepli ráðherrafundar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði vinnu íslenskra stjórnvalda um aðlögunarstefnu vegna loftslagsbreytinga að umtalsefni á fundi umhverfisráðherra Evrópusambandsríkja og EFTA ríkja í dag. Ráðherra ræddi mikilvægi aðlögunar svo hægt sé að horfa heildstætt á möguleg áhrif loftslagsbreytinga og auka viðnámsþrótt.

Á fundinum, sem haldinn var í gegnum fjarfundarbúnað, var fjallað um áskoranir tengdar áhrifum loftslagsbreytinga á vatn, hækkun sjávarborðs og vatnsbúskap og hvernig við því skuli brugðist. Einnig var til umræðu ný stefna ESB um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Guðmundur Ingi sagði íslensk stjórnvöld nú vinna að gerð sinnar fyrstu aðlögunaráætlunar, sem móta muni grunn stefnumótunar- og aðlögunarvinnu framtíðar. Byggir sú vinna á lagastoð sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019. Sagði ráðherra íslensk stjórnvöld fylgast vel með aðlögunarvinnu og áætlunum ríkja ESB og að sú stefna ESB að leggja áherslu á aðlögunaraðgerðir sem miða að því að efla vistkerfi og viðnámsþrótt þeirra sé í takt við stefnu íslenskra stjórnvalda.    

Guðmundur Ingi sagði Íslendinga einnig mæta áskorunum af völdum loftslagsbreytinga sem tengjast vatni og vatnsstjórnun. Ólíkt ríkjum Suður-Evrópu væri vandinn hins vegar frekar aukin úrkoma og meiri rigningar og nefndi hann skriðuföllin á Seyðisfirði í því sambandi, þó svo að vissulega hafi langir þurrkakaflar líka orðið áhyggjuefni á sumum svæðum á síðustu árum.

„Þessi skriðuföll  voru afleiðing mestu rigninga sem fallið hafa á Íslandi yfir fimm daga tímabil,“ sagði Guðmundur Ingi og kvað bráðnun sífrera í fjallshlíðum einnig geta haft áhrif. „Áhrif vegna mikillar úrkomu eru því ofarlega á forgangslista yfir áskoranir sem rannsaka þarf og gera áætlanir vegna.“

Guðmundur Ingi sagði bráðnun jökla annað dæmi um miklar áskoranir vegna loftslagsbreytinga enda hafi hún margvísleg áhrif á innviðauppbyggingu og ferðaþjónustu. Þá vék hann að hlýnun og súrnun sjávar. „Röskun vistkerfa sjávar er risastórt viðfangsefni fyrir Ísland enda hefur hún samfélags- og efnahagslegar afleiðingar fyrir okkur, jafnt á þær byggðir landsins sem byggja afkomu sína á fiskveiðum sem og á efnahag þjóðarinnar í heild.“

 

  • Ráðherra og ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytis ásamt starfsfólki á fundi umhverfisráðherra ESB og EFTA ríkja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira