Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fyrsta grænbókin um net- og upplýsingaöryggi kynnt í samráðsgátt

Grænbók um net- og upplýsingaöryggi hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í henni er fjallað um stöðu netöryggismála hér á landi og lagðar fram tillögur um framtíðarsýn og áherslur fyrir þá stefnu sem nú er í mótun. Hægt er að  senda inn umsögn, tillögur eða ábendingar en skilafrestur er til og með 7. maí nk. 

Grænbókin er fyrsti áfanginn í mótun nýrrar stefnu. Hún er fyrsta grænbók sinnar tegundar á sviði net- og upplýsingaöryggis, við mótun hennar er fylgt stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og viðmiðum um samræmingu áætlana á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Í grænbókinni er leitast við að svara því hvernig gildandi stefna hefur reynst og hverjar séu helstu áskoranir næstu ára. Einnig eru lögð fram drög að framtíðarsýn, lykilviðfangsefnum og áherslum.

Nýrri stefnu um net- og upplýsingaöryggi er ætlað að vera grunnur víðtæks samráðs, samhæfingar og samstarfs um netöryggi til að skapa nauðsynlegt öryggi um stafrænar lausnir framtíðar og leggja grunn að ábatasömum iðnaði og þjónustu. Til að þetta gangi eftir þarf öflugt samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og annarra hagaðila, í reynd alls samfélagsins. Stefna um net- og upplýsingaöryggi verður áfram hluti af fjarskiptaáætlun sem nú er einnig í mótun.

Stefna um net- og upplýsingaöryggi var fyrst kynnt árið 2015 að loknu víðtæku samráði og með hliðsjón af stefnum grannríkja á þessu sviði. Alþingi samþykkti nýja stefnu í júní 2019, sem birtist sem hluti af stefnu í fjarskiptum fyrir tímabilið 2019-2033 og fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023. Samhliða samþykkti Alþingi 2019 fyrstu heildstæðu lögin á Íslandi um netöryggi, að fyrirmynd samevrópsks regluverks. Í lögunum er kveðið á um að ráðherra skuli marka stefnu um net- og upplýsingaöryggi, sem endurskoða ber reglubundið. 

Grænbókin er umræðuskjal og er almenningi og haghöfum boðið að leggja fram sjónarmið sem nýst gætu í stefnumótuninni. Að loknu samráði eru niðurstöður dregnar saman (hvítbók) og mótuð stefna til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Í kynningu um grænbókina í samráðsgáttinni segir að netöryggi hafi þróast frá því að vera nær eingöngu tæknilegt viðfangsefni tölvusérfræðinga í að vera þverfaglegt viðfangsefni sem krefst víðtækrar samvinnu í samfélaginu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum