Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra sat fyrir svörum á viðburði Harvard og Wilson Center um norðurslóðir

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti í gær ávarp og sat fyrir svörum á vefviðburði um sjálfbæra framtíð á norðurslóðum sem haldinn var í samvinnu við Arctic Initiative hjá Harvard Kennedy School og Polar Institute hjá Woodrow Wilson Center í Bandaríkjunum.

Á viðburðinum, sem bar upp á alþjóðlegum degi jarðar, fimmtudaginn 22. apríl, var fjallað um hvað áunnist hefði á formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu, en því lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík 19.-20. maí nk. Guðlaugur Þór flutti opnunarerindi þar sem hann fjallaði meðal annars um áherslu íslensku formennskunnar á málefni hafsins. „Við höfum öll orðið vör við þær breytingar sem eru að eiga sér stað í norðurhöfum vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Okkur ber skylda til að standa vörð um höfin umhverfis okkur til að tryggja sjálfbærni á svæðinu til framtíðar,“ sagði hann í ræðu sinni.

Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri Arctic Initiative hjá Harvard, flutti inngangsorð og dr. Mike Sfraga, forstöðumaður Polar Institute hjá Wilson Center, stýrði umræðum að loknu erindi ráðherra, en í pallborði voru einnig Fran Ulmer, fyrrverandi vararíkisstjóri í Alaska og formaður bandarísku norðurslóðarannsóknanefndarinnar, og David Balton, fyrrverandi sendiherra hafmála í bandarísku utanríkisþjónustunni sem stýrði embættismannanefnd Norðurskautsráðsins þegar Bandaríkin gegndu síðast formennsku í ráðinu. 

Ráðherra átti einnig innlegg í nýliðinni á árlegri ráðstefnu um norðurslóðamál í Bodø í Noregi, High North Dialogue. Ávörp Guðlaug Þórs og Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, voru flutt af myndbandi í upphafi pallborðsumræðna um alþjóðlegt samstarf á norðurslóðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira