Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrræði vegna faraldurs: Skýrsla um nýtingu heimila og fyrirtækja

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru meirihluti þeirra sem nýta sér úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þrír af hverjum fjórum rekstraraðilum sem nýtt hafa úrræðin eru lítil fyrirtæki með færri en 5 starfsmenn eða einyrkjar, en heildarumfang sértækra stuðningsaðgerða hingað til nemur ríflega 80 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um eftirfylgni efnahagsaðgerða.

Aðgerðirnar árið 2020-2021 nema 6,5% af vergri landsframleiðslu ársins 2020, en sé litið lengra fram á veginn nema þær yfir 9% af VLF 2020. Ríkisfjármálunum hefur þannig verið beitt með fjölbreyttum hætti til að draga úr neikvæðum áhrifum faraldursins til skemmri og lengri tíma og dreifa kostnaði vegna hans á fleiri herðar og yfir tíma.

Heildarumfang stærstu sértæku stuðningsaðgerða hingað til nemur ríflega 80 mö.kr. Af því hafa um 72% verið í formi tilfærslna, 15% í ríkistryggðra lána og 13% í frestun skattgreiðslna. Auk þess hafa um 27 ma.kr. verið greiddir úr séreignarsjóðum og 7 ma.kr. verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti. Við þessi úrræði leggst kostnaður vegna ýmissa félagslegra úrræða, kostnaður heilbrigðiskerfisins auk fjárfestingarátaks.

Um fjórðungur fyrirtækja nýtt úrræði

Ferðaþjónustan er í meirihluta þeirra fyrirtækja sem nýta sér úrræði stjórnvalda en þó er aðsókn rekstraraðila í atvinnugreininni mismikil eftir úrræðum. Þrír af hverjum fjórum rekstraraðilum sem nýtt hafa aðgerðir stjórnvalda eru lítil fyrirtæki með færri en 5 starfsmenn eða einyrkjar. Um fjórðungur fyrirtækja í öllum stærðaflokkum hefur nýtt sér eitthvert úrræðanna.

 

Hlutabætur eru umfangsmesta úrræði stjórnvalda, en greiðslur vegna þeirra nema 28,1 ma.kr. Næst eru stuðnings- og viðbótarlán (12,2 ma.kr.), greiðsla launa á uppsagnarfresti (12,2 ma.kr.) og hefur skattgreiðslum verið frestað fyrir 10,2 ma.kr. Greiddir hafa verið tekjufallsstyrkir fyrir nær 10 ma.kr. til um 2 þúsund rekstraraðila og viðspyrnustyrkir fyrir 2,3 ma.kr. til yfir 700 fyrirtækja og einyrkja.

Áhersla á virk vinnumarkaðsúrræði

Sérstök áhersla er nú lögð á virk vinnumarkaðsúrræði. Fjölmörg störf eru þegar í boði í átakinu Hefjum störf. Á annað þúsund manns hafa þegið störf í gegnum úrræðið og alls hafa hátt á sjötta þúsund manns þegið ráðningar- eða nýsköpunarstyrki það sem af er árinu. Þessu til viðbótar eru námsúrræði í boði sem margir nýta sér í hverjum mánuði.

Gallup hefur kannað viðhorf stjórnenda fyrirtækja til efnahagsaðgerða stjórnvalda. Ánægja með efnahagsaðgerðirnar jókst í byrjun árs 2021 samanborið við haustmánuði 2020. Nú voru 60% svarenda ánægðir með aðgerðirnar en 15% óánægðir og um fjórðungur hvorki né.

Skýrslan sem nú er birt er sú þriðja sem hópurinn skilar ráðherra og önnur skýrslan þar sem sjónum er beint að nýtingu stærstu sértæku efnahagsaðgerða stjórnvalda, en að auki er talnaefni um nýtingu úrræðanna uppfært vikulega á vef Stjórnarráðsins.

Á vegum hópsins var einnig birt skýrsla í janúar þar sem fjallað var um aðgerðir vegna atvinnuástands, fólks í viðkvæmri stöðu og gagnvart sveitarfélögum. Var í þeirri skýrslu m.a. fjallað sérstaklega um fjölbreytt félagsleg úrræði, enda leggst faraldurinn með mjög ólíkum hætti á samfélagið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum