Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Mikilvægt að draga úr loftmengun á norðurslóðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti í dag opnunarávarp í rafrænu útgáfuhófi vegna skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahagslega kosti góðra loftgæða á norðurslóðum. Útgáfuhófið var haldið í samstarfi formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og OECD. 

„Norðurskautsríkin þurfa að vinna saman að því að draga úr loftmengun á norðurslóðum,“ sagði Guðlaugur Þór. „Slíkt gæti hægt á loftslagsbreytingum á svæðinu, en jafnframt stuðlað að miklum heilsufars- og efnahagslegum ávinningi fyrir íbúa norðurskautsins.“

Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, stýrði umræðum og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunnar, sat fyrir svörum og tók þátt í umræðum, en hún stýrir vinnuhópi Norðurskautsráðsins sem vinnur að því að draga úr losun sóts og metans á Norðurslóðum. 

Norðurskautsríkin hafa sett sér metnaðarfull markmið um að bæta loftgæði á norðurslóðum í sameiginlegri stefnu ríkjanna um loftslagsmál. Í skýrslu OECD eru kynntar áætlanir um efnahagslegar afleiðingar stefnu Norðurskautsríkjanna til að draga úr loftmengun á norðurslóðum, ásamt því að skoða kostnað og ávinning af framkvæmd stefnunnar. Einnig er í skýrslunni greint frá þeim efnahagslegu afleiðingum sem stefnumótun um bætt loftgæði utan Norðurskautsríkjanna myndi hafa í för með sér fyrir íbúa norðurslóða. Er þá átt við áheyrnaríki Norðurskautsráðsins sem telja til dæmis ýmis Evrópuríki, þar á meðal Bretland og Frakkland, ásamt öðrum ríkjum á heimsvísu, til dæmis Indland og Kína. Áhrif og framkvæmd samþættrar stefnu í loftslagsmálum og orkuskiptum í þessum ríkjum er einnig tekin fyrir. 

Vinna við skýrsluna var hafin að beiðni Finnlands í formennsku þeirra í Norðurskautsráðinu 2017-2019 en henni lauk á meðan formennska Íslands stóð yfir 2019-2021. 

 

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum