Hoppa yfir valmynd
3. maí 2021 Félagsmálaráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra leggur fram stefnu og aðgerðaáætlun um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland, markvissa framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Um er að ræða fyrstu stefnuna sem íslensk stjórnvöld setja fram til að fylgja eftir innleiðingu sáttmálans. Ráðherra hefur sett málefni barna í forgang síðan hann tók við embætti og er þingsályktunartillagan hluti yfirgripsmikillar vinnu sem unnin hefur verið í félagsmálaráðuneytinu með aðkomu fjölda aðila við að endurskoða og efla þjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Verði stefnan samþykkt mun Ísland skipa sér í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að réttindum barna.

Stefnan og aðgerðaráætlunin uppfyllir ítrustu kröfur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna,  skyldur stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum og fela í sér innleiðingu verklags og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar.

Helstu atriði stefnunnar eru m.a.

 • Þróa þátttökuvettvang stjórnvalda við börn og ungmenni á landsvísu.
 • Vinna úttekt á möguleikum barna og ungmenna til þátttöku í samstarfi við Evrópuráðið.
 • Samráðsgátt stjórnvalda gerð aðgengilegri börnum og ungmennum.
 • Þróun mælaborðs sem heldur utan um víðtækt tölfræðilegt yfirlit yfir velferð, líðan og réttindi barna.
 • Mótun og innleiðing hagsmunamats út frá réttindum barna, sem verður hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana í málum einstakra barna.
 • Fullgilding þriðju valkvæðu bókunarinnar við Barnasáttmálann, um sjálfstæða kæruleið til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
 • Mótun heildstæðrar stefnu í málefnum barna og ungmenna á landsvísu.
 • Endurskoðun og samræming lagaákvæða við Barnasáttmálann.
 • Fullgilding Haag samningsins í Barnavernd.
 • Markviss stuðningur við innleiðingu Barnasáttmálans inn í skóla og frístundastarf.
 • Stuðla að því að öll sveitarfélög hefji innleiðingu Barnasáttmálans og vinni að því að verða barnvæn sveitarfélög á næsta áratug.
 • Vinna greiningu á menntun fagaðila sem vinna með og fyrir börn á þekkingu þeirra áréttindum barna.
 • Efla eftirfylgd með niðurstöðum Barnaþings, sem haldið er af umboðsmanni barna á tveggja ára fresti.
 • Móta fræðsluáætlun umréttindi barna fyrir börn og fagaðila sem vinna með og fyrir börn.
 • Efla dag mannréttinda barna 20. nóvember ár hvert.

Stefnan um Barnvænt Ísland var unnin í samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um málefni barna og að henni hafa einnig komið opinberir aðilar, félagasamtök og börn og ungmenni. Við mótun stefnunnar var áhersla lögð á að hagsmunir barna verði ávallt hafðir í fyrirrúmi og að við stefnumótun í málaflokknum sé mótuð heildarsýn, sem tæki mið af sjónarhorni allra aðila sem koma að málefnum barna og fjölskyldna, ekki síst barnanna sjálfra.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:

Ég er virkilega ánægður með þennan stóra áfanga, að leggja fram stefnu og aðgerðaáætlun um Barnvænt Ísland á Alþingi. Við erum að gera miklar breytingar í málefnum barna og fjölskyldna, þar sem markmiðið er að gera Ísland að enn betri stað fyrir börn og að þau verði hjartað í kerfinu. Kerfið á að vinna fyrir börnin en ekki öfugt. Verði þetta samþykkt á Alþingi mun Ísland skipa sér í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að réttindum barna og mun þannig leika mikilvægt hlutverk í að draga vagninn fyrir réttindi barna út um allan heim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira