Hoppa yfir valmynd
3. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda ræddu væntanlegan ráðherrafund Norðurskautsráðsins

Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi í Borgarnesi árið 2019. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók í dag þátt í fjarfundi með öðrum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Á fundinum gerði Guðlaugur Þór meðal annars grein fyrir undirbúningi ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem fram fer á Íslandi 20. maí næstkomandi. Vonir standa til að sérstök yfirlýsing, svokölluð Reykjavíkuryfirlýsing, verði samþykkt á fundinum, auk stefnu ráðsins til næstu tíu ára. 

„Það er einlæg von mín að okkur takist að merkja 25 ára afmæli Norðurskautsráðsins með því að samþykkja stefnu fyrir ráðið á komandi ráðherrafundi. Vinna við Reykjavíkuryfirlýsinguna lofar einnig góðu,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum. 
Þá sagði hann skipulagningu fundarins miða vel miðað við krefjandi tíma og áður óþekktar aðstæður vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Fundurinn verði augljóslega ekki að sama umfangi og undir venjulegum kringumstæðum. Vegna heimsfaraldursins hefur þátttaka á fundinum í Reykjavík verið takmarkaður við utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta, auk ráðherra Færeyja og Grænlands, og samtök frumbyggja. Aðrir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Þá greindi ráðherra starfssystkinum sínum frá símafundi sínum við Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síðustu viku. Þar ræddu þeir meðal annars ráðherrafund Norðurskautsráðsins, en Blinken mun leiða sendinefnd Bandaríkjanna á fundinum. Jafnframt ræddu ráðherrarnir öryggismál, mannréttindi og loftslagsmál, en Svíar gegna nú formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og þá á Noregur sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, en Finnar leiða samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda í ár, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.

 

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira