Hoppa yfir valmynd
5. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

​Alls hafa 22 lokið fagnámi í umönnun sem ráðuneytið styrkti

Heilbrigðisráðuneytið ákvað á liðnu ári að efna til fagnámskeiðs í umönnun ætluðu fólki í atvinnuleit í samstarfi við stéttarfélagið Eflingu og Mími – símenntun og veitti ráðuneytið fjárstyrk til verkefnisins. Tvö slík námskeið hafa verið haldin og lauk því síðara í mars sl. Alls hafa 22 einstaklingar lokið námskeiðinu og þar með töldu starfsnámi með útskrift, 13 konur og 9 karlar. Einn til viðbótar er að ljúka starfsnáminu og útskrifast að því loknu.

Megintilgangurinn er að fjölga starfsfólki í umönnunarstörfum og að efla hópinn faglega.

Fagnámskeið í umönnun eru haldin reglulega en hingað til hefur skipulag og framkvæmd þeirra einskorðast við ófaglært starfsfólk sem er í starfi á þessu sviði. Fagnámskeiðin eru undanfari náms í  Félagsliðabrú, þau eru kostuð af stéttarfélögunum hlutaðeigandi starfsfólks og tekur fólk þau samhliða starfi. Nýmælið í verkefninu fólst í því að opna námskeið sem þessi fyrir fólk sem er án atvinnu, enda margir sem hafa misst vinnuna vegna COVID-19 og því vonir bundnar við að fólk úr þeim hópi kynni að sjá í þessu tækifæri til að breyta um starfsvettvang. Lengi hefur verið skortur á starfsfólki í umönnunarstörf og þörfin er mikil og vaxandi eftir því sem landsmönnum fjölgar og þjóðin eldist. 

Um námið

Námskeiðin taka mið af námskrá sambærilegra fagnámskeiða fyrir starfsmenn í félags- og heilbrigðisþjónustu. Námskráin er vottuð af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mögulegt er að meta námið til eininga á framhaldsskólastigi. Námskeiðið telur 82 klukkustundir með leiðbeinanda, auk 20 klukkustunda í starfsþjálfun fyrir þá sem ekki búa að starfsreynslu við umönnun. Meðal námsþátta eru aðstoð og umönnun, skyndihjálp, sjálfstyrking og samskipti, líkamsbeiting og fleira.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira