Hoppa yfir valmynd
5. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19, landamæri: Endurskoðuð viðmið fyrir skilgreiningu hááhættusvæða

Skilgreining viðmiða sem ákvarða hvort lönd eða svæði teljast til hááhættusvæða hafa verið endurskoðuð. Til viðbótar viðmiðum um nýgengi smita verður bætt við skilyrði um hlutfall jákvæðra sýna sem hefur áhrif á hvort svæði eða land telst hááhættusvæði eða ekki. Skilgreining hááhættusvæða hefur áhrif á hverjir þurfa að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi eða ekki við komuna til Íslands. Ný auglýsing sem birtir lista yfir þau lönd sem teljast til hááhættusvæða er meðfylgjandi og tekur gildi 7. maí næstkomandi, samhliða reglugerðarbreytingu um breytt viðmið við skilgreiningu hááhættusvæða.

Samkvæmt gildandi reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 er eingöngu horft til upplýsinga um 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa við skilgreiningu á hááhættusvæðum. Ef nýgengið er minna en 500 þurfa komufarþegar ekki að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi, sé það á bilinu 500 til 699 er sóttkví í sóttvarnahúsi áskilin en hægt að sækja um undanþágu frá þeirri kröfu og ef nýgengið er 700 eða meira þurfa farþegar skilyrðislaust að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi.

Með reglugerðarbreytingunni sem tekur gildi 7. maí verður jafnframt horft til upplýsinga um hlutfall jákvæðra sýna í viðkomandi landi á hverjum tíma. Byggt er á því að nýgengið veiti ekki eitt og sér fullnægjandi mynd af útbreiðslu samfélagssmita, því ef hlutfall jákvæðra sýna sé hátt bendi það til þess að samfélagssmit sé útbreiddara en tölur um nýgengi benda til.

Áhrif breytinganna

Verulega fjölgar á lista yfir lönd sem skilgreind eru sem hááhættusvæði. Meginástæðan er sú að á listann bætast lönd sem eru með nýgengi smita undir 500 en hlutfall jákvæðra sýna sem er 5% eða hærra.

Skilyrðislaus krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi: Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi. Þetta á einnig við ef nýgengi smita er á bilinu 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra, eða ef nýgengi er yfir 500 en fullnægjandi upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Einungis er vikið frá þessari kröfu ef veigamiklar ástæður mæla með því, svo sem fötlun, þroski eða sambærilegar aðstæður þess sem hlut á að máli.

Krafa um sóttkví í sóttvarnahúsi með möguleika á undanþágu: Farþegar sem koma frá landi þar sem nýgengi smita er 500–699 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 5% skulu sæta sóttkví í sóttvarnahúsi en eiga þess kost að sækja um undanþágu frá því skilyrði. Sama máli gegnir um þá sem koma þaðan sem nýgengi smita er undir 500 en hlutfall jákvæðra sýna er 5% eða hærra eða upplýsingar um hlutfall jákvæðra sýna liggur ekki fyrir. Sá sem sækir um undanþágu þarf að sýna fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum. Hægt er að skrá ósk um undanþágu við forskráningu á heimkoma.covid.is 48-72 klst. fyrir komuna til landsins.

Vottorð um bólusetningu eða fyrra smit: Sem fyrr þurfa þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrra smit aðeins að fara í eina sýnatöku við komuna til landsins. Mikilvægt er að þeir haldi sig til hlés og fari að reglum um sóttkví meðan þeir bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.

Færeyjar og Grænland: Farþegar frá Færeyjum verða undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum frá og með 10. maí næstkomandi og þurfa því hvorki að framvísa vottorðum né sæta sýnatöku og sóttkví. Þetta á þegar við um farþega frá Grænlandi. Þar með verða þessi tvö lönd, ein landa, á lágáhættulista sóttvarnalæknis.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum