Hoppa yfir valmynd
6. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra veitir styrki til frjálsra félagasamtaka

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur úthlutað styrkjum af safnliðum fjárlaga til frjálsra félagasamtaka en styrkirnir eru veittir árlega og er ætlað að styðja við verkefni á sviði félags- og velferðarmála. Venja er að úthlutun fari fram með formlegri athöfn en í ljósi aðstæðna í samfélaginu og samkomutakmarkana var ákveðið að sá háttur yrði ekki hafður á í ár. Alls nemur upphæð styrkjanna tæpum 107 milljónum króna.

Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á verkefni sem styðja eiga viðkvæma hópa í að takast á við margþætt áhrif og afleiðingar Covid-19 faraldursins. Einnig voru veittir styrkir til verkefna sem heyra undir málefnasvið félags- og barnamálaráðherra, þar á meðal málefnum barna, fatlaðs fólks, fátækt, félagslegri virkni og ofbeldi.

Hér má sjá yfirlit yfir styrkþega.

Til viðbótar við framangreinda styrki hefur félags- og barnamálaráðherra nýverið veitt styrki til margvíslegra verkefna sem lúta meðal annars að málefnum barna og ungmenna, geðheilbrigði, félagslegri virkni jaðarsettra hópa, efnhag heimilanna og íþróttastarfi fatlaðs fólks sem og ófatlaðra.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Starfsemi frjálsra félagasamtaka er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag og þau vinna ómetanlegt starf. Undanfarið ár hefur svo sannarlega sýnt mikilvægi þeirra, en mikið álag hefur verið hjá mörgum samtökum vegna Covid-9 faraldursins. Það er því sérstaklega ánægjulegt að styðja við fjölbreytt verkefni sem hjálpa viðkvæmum hópum á að takast á við afleiðingar faraldursins, og ekki síður ánægjulegt að styrkja verkefni sem munu nýtast börnum, fötluðum og öðrum viðkvæmum hópum samfélagsins.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum