Hoppa yfir valmynd
6. maí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ráðherra skipar vísindanefnd til að fjalla um áhrif loftslagsbreytinga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flytur ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands. - myndVeðurstofan

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað nefnd, sem falið hefur verið að vinna að gerð vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi.

Skýrslan á að taka mið af reglulegum úttektarskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag. Þetta er í þriðja sinn sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið lætur vinna  vísindaskýrslu um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi en fyrri skýrslur komu út árin 2000, 2008 og 2018.  Í skýrslunum eru settar fram nýjustu og bestu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni.

Guðmundur Ingi greindi frá skipan nefndarinnar á ársfundi Veðurstofu Íslands í gær. „Með breytingum á lögum um loftslagsmál sem ég mælti fyrir á Alþingi og samþykktar voru árið 2019 er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að láta reglulega vinna vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Þar eru settar fram nýjustu og bestu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni, en Veðurstofunni er falið að leiða þessa vinnu með aðkomu sérfræðinga á sviði náttúruvísinda og samfélagslegra þátta,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu.

Nefndin á að skila skýrslunni til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir 1. júní 2023.

 

Formaður nefndarinnar er Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands.

Í nefndinni eiga einnig sæti:

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands,

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands,

Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor á Verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands,

Helga Ögmundardóttir, lektor á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands,

Starri Heiðmarsson, sviðsstjóri í grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands,

Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis,

Hildur Pétursdóttir, sjávarvistfræðingur og Guðjón Már Sigurðsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira