Hoppa yfir valmynd
7. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

13 milljarðar króna í tekjufalls- og viðspyrnustyrki - aðgerðir framlengdar

Hátt í 13 milljarðar króna hafa verið greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki, sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila, þ.m.t. einyrkja, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Alls hafa rúmlega 2,4 milljarðar króna verið greiddir í lokunarstyrki.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi  um framlengingu og útvíkkun viðspyrnustyrkja og lokunarstyrkja og greiðslu sérstaks barnabótaauka til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur.

Frumvarpið er hluti aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku með það að markmiði að styðja við einstaklinga og rekstraraðila á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn. Þær fela einnig í sér nýja ferðagjöf, framlengingu úttektar séreignasparnaðar, hliðrun á endurgreiðslutíma stuðningslána, eingreiðslu til langtímaatvinnulausra, aukin framlög til geðheilbrigðismála barna og ungmenna og sumarlán fyrir námsmenn, auk viðbótarlána fyrir skólaárið 2021-2022.

Nýju og framlengdu úrræðin miða að því að verja áfram grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Síðustu mánuði hafa ríflega 80 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar og aukinnar endurgreiðslu virðisaukaskatts (VSK). Á fimmta þúsund rekstraraðilar og um fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum