Hoppa yfir valmynd
7. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þróunarverkefni um mælaborð á líðan og velferð aldraðra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Ingibjörg Isaksen.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Akureyrarbæ um þróun og innleiðingu á mælaborði á líðan og velferð aldraðra og er markmiðið með verkefninu að stuðla að markvissri upplýsingagjöf um líðan og velferð aldraðra. Með samningnum hefst formlega fyrsti hluti þróunarverkefnis sem miðar að því að samræmdar og tölfræðilegar upplýsingar um líðan og velferð aldraðra verði aðgengilegar hér á landi.

Vinna starfshóps um lífskjör og aðbúnað aldraðra, sem Ingibjörg Isaksen stýrir, leiddi í ljós þörf fyrir markvissari, samræmdari og tímanlegri upplýsingar um líðan og velferð aldraðra á hverjum tíma.

Verkefnið, sem Akureyrarbær mun stýra, felur í sér kortlagningu á þjónustu við aldraðra hér á landi og greiningu á hvaða gögnum er nú þegar safnað hjá þjónustuveitendum og öðrum aðilum eftir atvikum með reglubundnum hætti.

Þá verður greint hvaða gögn og upplýsingar um aldraða eru ekki skráðar með fullnægjandi hætti í dag, og hvort og hvar þeirra þurfi að afla svo tryggja megi samræmdar og tímanlegar upplýsingar um líðan og velferð aldraðra hér á landi. Þessar upplýsingar verða síðan gerðar aðgengilegar í mælaborði á líðan og velferð aldraðra.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Ég er mjög ánægður að þetta verkefni sé farið af stað en það er mjög mikilvægt að kortleggja þjónustu við aldraða hér á landi og að við setjum þessar upplýsingar fram á aðgengilegu formi, sem er rafrænt mælaborð á líðan og velferð aldraðra. Þar er markmiðið að fá fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu hverju sinni og hjálpa okkur að átta okkur á þeim verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða eftir því.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum