Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðist í heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma

Helga Sif Friðjónsdóttir - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir mun annast úttektina.

Embætti landlæknis gaf á liðnu ári út samantekt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna notkunar áfengis og vímuefna. Samantektin, sem byggir á gögnum frá heilbrigðisstofnunum, undirstrikar fyrst og fremst mikilvægi samræmingar í skráningu, viðmiða og verklagi þegar kemur að meðferð við áfengis- og vímuefnavanda. Eins og fram kemur í skýrslu embættisins hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sameinuðu þjóðirnar gefið út viðmið um meðferð vegna vímuefnaneyslu. Þar er m.a. lögð áhersla á að meðferð þurfi að fela í sér þjónustu sem er í boði úti í samfélaginu og nær til jaðarsettra hópa. Er þar sérstaklega bent á skimun, stutt inngrip göngudeilda, dagdeilda og innlagna, læknisfræðileg og sálfélagsleg úrræði, langtímabúsetuúrræði, endurhæfingu og stuðningsmeðferð fyrir einstaklinga í bataferli. Ein af tillögum embættis landlæknis er að stefna í áfengis- og vímuvörnum verði endurskoðuð og gildi til ársins 2030 og að stefnunni fylgi tímasett aðgerðaáætlun sem taki meðal annars til heildstæðra viðmiða og alþjóðlegra staðla um þjónustu og meðferð á sviði áfengis- og vímunefnameðferðar.

Þjónustan hér á landi

Hér á landi er áfengis- og vímuefnameðferð að stórum hluta veitt af frjálsum félagasamtökum en þjónustan fjármögnuð að stærstum hluta af hinu opinbera. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda (SÁÁ) hafa verið leiðandi í þróun hugmyndafræði og meðferðar á þessu sviði en aðkoma opinberra heilbrigðisstofnana hefur verið takmörkuð hvað þetta varðar. Hluti þjónustu við þennan hóp er veittur af stofnunum og meðferðarúrræðum sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Ekki hefur tekist að stíga nauðsynleg skref í samþættingu heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu sem myndi byggjast á þeirri hugmyndafræði fíknifræða að vímuefnavandi hafi lífsálfélagslegar orsakir og því árangursríkast að samþætta og veita heildræna velferðarþjónustu og eftirfylgd fyrir fólk með vímuefnasjúkdóm.

Úttektin forsenda stefnumótunar til framtíðar

Brýnt er að móta nýja stefnu til framtíðar í þessum málaflokki með heildstæðum tillögum um samþættingu og samvinnu fyrsta-, annars- og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu þar sem jafnframt yrði skoðaður fýsileiki þess að samþætta heilbrigðis- og félagslega þjónustu gagnvart notendum. Forsenda nýrrar stefnumótunar er heildarúttekt á núverandi þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við fólk með vímuefnasjúkdóm. Einnig þarf að skoða hvar núverandi heilbrigðisþjónusta byggir á gagnreyndri þekkingu/klínískum leiðbeiningum og hvar eru brotalamir hvað þetta varðar. Við úttektina verða rýndar fjórar meginvíddir, þ.e. 1) árangur þjónustuveitenda, 2) þjónustuferli innan stofnana og á milli stofnana, 3) hugmyndafræði að baki þjónustu viðkomandi stofnana og 4) innihald veittar þjónustu. Að auki verður skoðað hvort og hvernig tilteknir hópar hafa ákveðnar sértækar þarfir m.t.t. þessarar þjónustu, t.d. karlar og konur eða ólíkir aldurshópar.

Beitt verður aðferðafræði Benchmarking best practice sem nýtist vel til að greina hvaða eiginleikar stofnana/þjónustuveitenda leiða til hámarksárangurs og einnig til að greina kosti og ókosti núverandi þjónustukerfis og meta hvaða atriði þarf að færa til betri vegar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum