Hoppa yfir valmynd
12. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukinn stuðningur við frístundir 12-16 ára barna og unglinga sem eru í viðkvæmri stöðu

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að styðja fjárhagslega við þau sveitarfélög sem hyggjast auka við frístundarstarfsemi barna og unglinga í viðkvæmri stöðu í sumar. 90 milljónir króna verða settar í styrki til að efla virkni, vellíðan og félagsfærni hóp í viðkvæmri stöðu í samvinnu við sveitarfélögin þar sem sveitarfélögunum gefst kostur á að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna sem miða að því að virkja hópinn með fjölbreyttum úrræðum.

Sveitarfélög geta sótt um 4.090 króna styrk fyrir hvert barn eða ungling á aldrinum 12-16 ára í sveitarfélaginu en gert er ráð fyrir að lágmarksframlag verði ekki undir 100.000 krónum. Sérstaklega er horft til aldurshópsins 12 til 16 ára, og áhersla lögð á að ná til þess hóps barna og unglinga sem hvað síst sækja hefðbundið frístundarstarf. Einnig eru líkur á að aldurshópurinn 12-16 ára sé í hvað minnstri virkni yfir sumartímann og í aukinni áhættu hvað varðar til dæmis áhættuhegðun eða kvíða.

Sveitarfélög geta sótt um ákveðið fjármagn til félagsmálaráðuneytisins til að efla eða hefja verkefni af þessu tagi. Þau sveitarfélög sem ekki hafa sótt um í ár eru hvött til að senda inn umsókn á netfangið [email protected] eigi síðar en 17. maí næstkomandi.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Covid-19 faraldurinn hefur reynt á okkur öll og börn og unglingar í viðkvæmri stöðu sem eru ekki í virkni yfir sumartímann eru í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, félagslegri útilokun og ofbeldi eða neyta fíkniefna vegna þeirra aðstæðna sem faraldurinn hefur skapað. Við réðumst í svipað verkefni síðasta sumar sem heppnaðist mjög vel og ég tel því mikilvægt að endurtaka leikinn í ár.”

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum