Hoppa yfir valmynd
12. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölbreytt félagsstarf fullorðinna í samstarfi við sveitarfélög

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett af stað 80 milljóna króna átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar í samvinnu við sveitarfélög landsins. Markmiðið með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun sem orðið hefur vegna Covid-19 faraldursins. Aðgerðirnar eru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu.

Sveitarfélögunum gefst kostur á að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna sem miða að því að virkja hópinn með fjölbreyttum úrræðum. Sveitarfélögin geta sótt um styrk inn á island.is en hvert og eitt sveitarfélag mun geta sótt um 1.700 kr. styrk fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu sem er 67 ára og eldri, en lágmarksframlag verður ekki undir 100.000 kr.

Eldri borgarar hafa víða þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun vegna samkomutakmarkana og sjálfsskipaðrar sóttkvíar. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu, tæknilæsi og forvarnir með það að markmiðið að auka lífsgæði og heilbrigði fólks, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun.

Ráðherra setti samskonar verkefni af stað fyrir sumarið 2020 og verkefnin sem sveitarfélögin sóttu um styrk fyrir voru fjölbreytt enda stærð sveitarfélaganna mismunandi. Minnstu sveitarfélögin nýttu styrkinn meðal annars til að halda kaffisamsæti með uppákomu, gönguferðir með leiðsögn, harmonikkuball, golfmót og grill. Stærri sveitarfélögin buðu upp á verkefni á borð við ferðir á söfn, styttri gönguferðir, menningartengda viðburði, jóga, dans og aðra hreyfiþjálfun og tæknilæsinámskeið þar sem boði var upp á hóptíma, einstaklingþjálfun og fjarþjálfun.

Þau sveitarfélög sem ekki hafa sótt um í ár eru hvött til að senda inn umsókn á netfangið [email protected] eigi síðar en 17. maí næstkomandi.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Margir eldri borgarar hafa upplifað mikla félagslega einangrun undanfarið ár vegna Covid-19 faraldursins sem hefur haft áhrif á virkni og vellíðan þeirra. Markmiðið með þessu verkefni er að auka lífsgæði og heilbrigði eldri borgara, ásamt því að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun þeirra. Ég hvet því öll sveitarfélög landsins til þess að koma með okkur í þetta verkefni og efla félagsstarf fullorðinna enn frekar í sumar .”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum