Hoppa yfir valmynd
12. maí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Norrænir ráðherrar vilja uppfæra metnað varðandi vernd lífríkis og loftslags

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Mikilvægt er að taka metnaðarfull skref til að efla vernd lífríkis og loftslags og nýta tækifærin sem til þess gefast á mikilvægum alþjóðlegum ráðstefnum um þau efni sem haldnar verða haustið 2021. Þetta kemur fram í yfirlýsingum sem umhverfisráðherrar Norðurlandanna sendu frá sér eftir fund sinn í dag.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði að Norðurlöndin geti gegnt mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu starfi að umhverfismálum, með því að sýna gott fordæmi og með málflutningi sínum hjá alþjóðastofnunum og -samningum. Gott dæmi um það væri vinna við að koma á alþjóðlegum samningi um plastmengun á vettvangi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP. Norðurlöndin hafi kynnt þar tillögu að því hvernig slíkur samningur gæti verið, sem hjálpi til við að vinna þeirri hugmynd fylgi. Ráðherra lagði einnig áherslu á að Norðurlöndin hvetji til náttúrulegra lausna, s.s. vernd og endurheimt skóga og votlendis, sem komi að gagni bæði í baráttunni gegn loftslagsvá og fyrir vernd lífríkis.

Í yfirlýsingunni sem ráðherrarnir sendu frá sér er bent á að álag á vistkerfi hafsins fari vaxandi með súrnun sjávar og margvíslegum áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta kalli á bætta vísindalega þekkingu og vistkerfisnálgun við stjórnun og nýtingu auðlinda hafsins svo hægt sé að tryggja vernd og endurheimt vistkerfa. Mikilvægt sé að ná árangri á fundi Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Kína, sem halda á í október 2021. Draga þurfi úr álagi á lífríkið af völdum auðlindanýtingar, loftslagsbreytinga, mengunar og ágengra framandi tegunda. Sérstaklega er bent á möguleika á því að binda kolefni úr andrúmslofti í lífríki hafsins og nauðsyn þess að efla þekkingu á því sviði.

Þá er í yfirlýsingunni bent á að 26. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 26), sem verður haldið í nóvember nk., marki tímamót. Þar eigi í fyrsta sinn að ræða uppfærð markmið ríkja, sem sett voru með samþykkt Parísarsamningsins árið 2015. Bent er á ýmislegt framtak Norðurlandanna til að styðja við niðurstöður COP 26, meðal annars stuðning við loftslagsverkefni í þróunarríkjum og tilraunaverkefni varðandi alþjóðlegt viðskiptakerfi í tengslum við Parísarsamninginn. Norðurlöndin muni í samvinnu við önnur ríki vinna að því að ná markmiðum um kolefnishlutleysi, m.a. með því að nýta framsæknar lausnir sem norræn fyrirtæki bjóða upp á. Þá  lögðu ráðherrarnir einnig áherslu  á mikilvægi þess að rödd ungs fólks heyrist í umræðunni um loftslagsvá á alþjóðavettvangi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira