Hoppa yfir valmynd
13. maí 2021 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Harpa fær nýjan flygil og Vindhörpu í 10 ára afmælisgjöf

Tilkynnt var um gjafirnar í Hörpu í dag.  - mynd

Í dag eru 10 ár liðin frá formlegri opnun Hörpu og af því tilefni hafa íslenska ríkið og Reykjavíkurborg fært Hörpu gjafir sem báðar endurspegla mikilvægt hlutverk hússins til framtíðar. Um er að ræða nýjan Steinway konsertflygil og útilistaverkið, Vindhörpu,  eftir Elínu Hansdóttur en verkið verður sett upp á Hörputorgi.

Listaverkið varð til í samkeppni um list í opinberu rými í umhverfi Hörpu árið 2008.  Ekki var farið í framleiðslu á verkinu á sínum tíma vegna efnahagshrunsins. Verkefnið var svo endurvakið í tilefni 10 ára afmælis hússins og stefnt er að því að afhjúpa listaverkið á Menningarnótt en Vindharpa er fagurlega formað hljóðfæri með strengjum sem virkja vindinn sem hljóðgjafa og mun kosta um 30 milljónir króna.

Kostnaður við kaup á nýjum konsertflygli er um 25 milljónir króna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, tilkynntu um gjafirnar í Hörpu í dag. Við það tilefni var einnig frumflutt nýtt afmælislag Hörpu, en lagið er samið og flutt af hópi 10 ára barna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Það var mikilvægur áfangi fyrir íslenskt tónlistarfólk þegar Harpa var loksins opnuð fyrir tíu árum. Þá höfðu íslenskir tónlistarmenn barist fyrir tónlistarhúsi áratugum saman. Bygging hússins stóð tæpt eftir hrun og margir sem vildu að hætt yrði við framkvæmdina. Ég er mjög stolt af þeirri ákvörðun ríkis og borgar að halda áfram með bygginguna á sínum tíma enda hefur húsið orðið glæsilegur vettvangur tónlistar frá öllum heimshornum. Við fögnum þessum degi með því að færa húsinu nýjan flygil og útilistaverk sem mun verða húsinu til mikils sóma.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:

,,Harpa er hús okkar allra. Allrar þjóðarinnar. Sumir efuðust um það í upphafi en hún er það. Hér er alls konar tónlist fyrir alls konar fólk. Fundir, mannfagnaðir og mannlífið í allri sinni litadýrð. Harpa hefur gert meira en að skapa nýjan vettvang fyrir menningu og listir. Hún hefur laðað að sér listafólk og tónlistarunnendur víðs vegar að úr heiminum sem aldrei hefðu auðgað mannlfið í borginni ef ekki væri fyrir okkar góða tónlistarhús. Hér höldum við barnamenningarhátíð, hér höldum við sinfóníutónleika og setjum óperur á svið og stígum trylltan dags á Iceland Airwaves. Harpa er flaggskip í menningarborginni Reykjavík. Til hamingju með daginn! ”

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu:

,,Það er almennt ekki talið ásættanlegt fyrir fremstu píanista heims að spila einleikstónleika á hljóðfæri sem er orðið eldra en 10 ára. Til að Harpa verði áfram viðurkennd sem tónlistarhús á heimsmælikvarða var því orðið afar brýnt að endurnýja flyglakostinn. Gjöfin er bæði rausnarleg og afar mikils metin. Víkingur Heiðar Ólafsson mun taka þátt í að velja flygilinn en hann hefur verið hvatamaður þess að flyglakostur Hörpu yrði endurnýjaður. Stefnt er að því að vígja hljóðfærið á útgáfutónleikum Víkings Heiðars í Eldborg síðar á afmælisárinu.”

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður stjórnar Hörpu.

,,Það er ómetanlegt fyrir okkur sem samfélag að eigendur Hörpu standi með menningunni og styðji við starfsemina þegar vel gengur í samfélaginu en líka þegar á brattan er að sækja. Við sem komum að rekstri Hörpu erum þakklát fyrir gott samstarf og góðan stuðning sem við höfum fundið frá eigendum. Sérstaklega erum við þakklát fyrir þær gjafir sem eigendur hafa afhent Hörpu í dag á þessum tímamótum sem munu styðja við þá stefnu okkar að Harpa sé allt í senn heimavöllur og heimssvið, ávallt á heimsmælikvarða.    Við sjáum fyrir endann á þeim miklu takmörkunum sem litað hafa líf okkar síðustu misseri og það er full ástæða til að horfa björtum augum til framtíðarinnar."

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum