Hoppa yfir valmynd
14. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Ný skýrsla um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, með skýrsluna. - mynd

Ný skýrsla um stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum (e. Pan-Arctic Report: Gender Equality in the Arctic) kom út í dag í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í næstu viku en jafnréttismál á norðurslóðum hafa verið meðal áherslusviða í formennsku Íslands í ráðinu undanfarin tvö ár. 

Í tilefni af útgáfu skýrslunnar efndi Norðurslóðanet Ísland til rafræns útgáfufundar þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði fundargesti. 

„Áhugi umheimsins á norðurslóðum er sífellt að aukast og svæðið er að ganga í gegnum vistfræðilegar, félagslegar og efnahagslegar breytingar. Þessar breytingar hafa mismunandi áhrif á íbúa norðurslóða og hafa ólík áhrif á karla og konur,“ sagði Guðlaugur Þór m.a. og undirstrikaði þörfina á greiningu sem tekur m.a. mið af mismunandi stöðu kynjanna.

„Norðurskautsráðið getur gengið fram fyrir skjöldu hvað þetta varðar með því að halda áfram að styðja við rannsóknir og aðgerðir til þess að bæta og efla kynjajafnrétti á norðurslóðum,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Polar Institute við Wilson Center í Washington D.C., Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Jafnréttisstofu og Institute of Arctic Studies við Dartmouth-háskóla í New Hampshire.

 

Skýrslan er hluti af samstarfsverkefni um kynjajafnrétti á norðurslóðum (e. Gender Equality in the Arctic, GEA), sem er unnið undir hatti vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Working Group, SDWG) og á rætur að rekja aftur til ársins 2013. Upphaflega er GEA verkefnið runnið undan rifjum utanríkisráðuneytisins í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Jafnréttisstofu. Markmið verkefnisins er að efla umræðu um jafnréttismál á norðurslóðum og leggja grunn að upplýstri stefnumótun.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að mikið skorti upp á að gögn og tölfræði taki tillit til sérstöðu norðurslóða og eins að þau séu oft ekki greind eftir kynjum og uppruna.Að baki skýrslunni standa tíu aðalhöfundar auk um 80 meðhöfunda. Áhersla var lögð á samstarf og samráð við ýmsa hagaðila. Meðal annars var reynt að tryggja að sjónarmið ungs fólks kæmu fram og var í þeim tilgangi settur á fót ráðgjafahópur ungmenna. Fulltrúar ráðgjafahópsins áttu sæti í ritstjórn auk aðalhöfunda skýrslunnar og fulltrúa SDWG frá bæði aðildarríkjum Norðurskautsráðsins og samtökum frumbyggja á norðurslóðum.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna á vefsíðu verkefnisins: arcticgenderequality.network.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum