Hoppa yfir valmynd
18. maí 2021 Forsætisráðuneytið

Katrín og Blinken áttu fund

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fund með Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem er staddur á Íslandi í tilefni fundar Norðurskautsráðsins.

Á fundinum ræddu Katrín og Blinken um stöðu heimsfaraldursins og mikilvægi þess að uppbygging að honum loknum verði græn og sjálfbær. Katrín lýsti ánægju sinni með að Bandaríkin séu aftur orðin aðili að Parísarsáttmálanum og ítrekaði mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á sviði loftslagsmála.

Málefni Ísraels og Palestínu voru einnig rædd á fundinum. Katrín lýsti þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að koma verði á vopnahléi og hvatti til þess að bandarísk stjórnvöld beittu sér fyrir friðsamlegri lausn á svæðinu sem byggði á tveggja ríkja lausninni.

Að lokum ræddu Katrín og Blinken um mikilvægi alþjóðalaga og þess að lýðræði og mannréttindi séu höfð í forgrunni. Þá ræddu þau sérstaklega um kynjajafnréttismál og málefni norðurskautsins.

Katrín Jakobsdóttir: „Ísland og Bandaríkin hafa ávallt átt góð og mikilvæg samskipti og þessi fundur undirstrikaði það. Ég fagna sérstaklega stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda í loftslagsmálum og nýjum áherslum þeirra í jafnréttismálum. Þá hvatti ég til þess að bandarísk stjórnvöld beiti sér fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira