Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherrum Kanada, Finnlands og Svíþjóðar

Frá utanríkisráðherrafundi Íslands og Svíþjóðar í dag - myndUtanríkisráðuneytið/Sigurjón Ragnar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti í dag tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Kanada, Finnlands og Svíþjóðar sem komnir eru hingað til lands í tilefni af ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Samskipti ríkjanna og ýmis önnur málefni voru þar til umræðu.

„Það var kærkomin tilbreyting að geta hitt starfssystkin mín augliti til auglitis. Þrátt fyrir fjölmarga kosti fjarfundarfyrirkomulagsins er hið hefðbundna fyrirkomulag ennþá besti vettvangurinn til þess að efla og byggja upp trúnaðartraust. Fundirnir nýttust vel og veita gott veganesti inn í ráðherrafund Norðurskautsráðsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fundina í dag.

Ráðherra hóf daginn á tvíhliða fundi með Marc Garneau utanríkisráðherra Kanada. Viðskiptamál voru ofarlega baugi og rætt var um hugsanlega útvíkkun á fríverslunarsamningi Íslands og Noregs við Kanada. Ráðherrarnir ræddu m.a. um stöðu ferðaþjónustugreinarinnar og áhrif heimsfaraldursins á hana en Kanadamenn hafa undanfarin ár verið fjölmennastir allra ferðamanna til Íslands miðað við höfðatölu.

Málefni norðurslóða voru einnig fyrirferðamikil þar sem samstaða var um að leggja áherslu á gott samstarf við önnur aðildarríki ráðsins og vinna náið með frumbyggjum svæðisins. Jafnframt barst talið að umhverfis- og loftslagsmálum, öryggis- og varnarmálum og þá ræddu ráðherrarnir einnig um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.

Síðdegis fundaði Guðlaugur Þór með Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands þar sem málefni norðurslóða voru efst á baugi en Ísland tók við formennskunni af Finnlandi árið 2019. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu verði viðhaldið á norðurslóðum. Í því ljósi geti Norðurskautsráðið verið öðrum þjóðum fyrirmynd um hvernig hægt sé að útkljá veigamikil mál á friðsælan hátt.

Á fundinum voru tvíhliðamál ríkjanna einnig fyrirferðamikil en á næsta ári verða 75 ár frá því að stjórnmálasamband ríkjanna var komið á. Guðlaugur Þór stakk upp á því að nýta tilefnið til þess að horfa um öxl og rýna í viðskiptasamband ríkjanna og leita leiða til að efla það enn frekar. Ráðherrarnir ræddu jafnframt yfirstandandi átök fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þá fundaði Guðlaugur Þór jafnframt með Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar. Rætt var um ráðherrafund norðurskautsráðsins sem fram fer á morgun og komandi formennsku Rússlands. Auk þess voru öryggis- og varnarmál til umræðu, einkum í samhengi við norðurslóðir og samstarf Svíþjóðar við Atlantshafsbandalagið. Þá var ófriðurinn á milli Ísraels og Palestínu til umræðu og voru ráðherrarnir sammála um að áríðandi væri á að koma á vopnahléi á milli stríðandi fylkinga sem allra fyrst.

Tvíhliða samskipti ríkjanna voru ofarlega á baugi og ræddu ráðherrarnir m.a. um nýtilkomið samstarf Íslandsstofu og Business Sweden. Guðlaugur Þór fagnaði framtakinu og sagði það vera dæmi um hvernig norrænt samstarf virkar eins og best verður á kosið. Ráðherra kvaðst jafnframt vona að Anna Hallberg utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar sæi sér fært að heimsækja Íslands ásamt fulltrúum frá Business Sweden til þess að fagna samstarfinu.

  • Marc Garneau, utanríkisráðherra Kanada, og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi þeirra í dag.
  • Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi þeirra í dag.
  • Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi þeirra í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira