Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Matvælaráðuneytið

Margvísleg tækifæri til bættrar afkomu í sauðfjárrækt

Tækifæri íslenskra sauðfjárbænda til bættrar afkomu liggja í áframhaldandi hagræðingu í búrekstri, hagræðingu í rekstri sláturhúsa og hagkvæmara fyrirkomulagi útflutnings. Þetta eru helstu niðurstöður skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um um afkomu sauðfjárbænda á Íslandi og leiðir til að bæta hana. Skýrslan var unnin að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var kynnt í dag á opnum streymisfundi. 

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Þessi skýrsla er afskaplega upplýsandi um þá þróun sem varð hér í lækkun afurðaverðs til bænda árið 2017 og ástæður þeirrar þróunar. Þó afurðaverð hafi sem betur fer farið hækkandi undanfarin ár þá er alveg óumdeilt að afurðaverð til bænda er enn of lágt – mun lægra en í öðrum Evrópuríkjum. Það er staða sem ekki verður unað við. Það er því jákvætt að í skýrslunni eru teiknaðar upp tilteknar aðgerðir og tækifæri sem hægt er að grípa til þannig að unnt sé að snúa þessari þróun við. Því segi ég að þessi skýrsla getur orðið grundvöllur þeirrar vinnu sem blasir við okkur á næstu vikum og mánuðum.“

 

Hér má fylgjast með streyminu og upptöku, en Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands og einn höfunda skýrslunnar kynnti efni hennar ásamt ráðherra.

 

Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um sauðfjárframleiðsluna í landinu, rekstur, sölumál, útflutning, afurðakerfið og stuðningskerfið.  Skýrslunni fylgir jafnframt tillaga að aðgerðaáætlun um leiðir til að bæta stöðu greinarinnar. Þá er fjallað um opinberan stuðning við greinina, áhrif hans og þróun stuðningskerfanna undanfarin ár. Enn fremur er umfjöllun um sauðfjárræktina á alþjóðavísu og samanburð þeirrar íslensku við önnur sauðfjárræktarlönd.

Í skýrslunni kemur fram að rekstur íslenskra sauðfjárbúa hafi verið erfiður á undanförnum árum og afkoma bænda léleg. Lækkun afurðaverðs um 40% samtals á árunum 2016–2017 skýrir að mestu þessa stöðu. Í skýrslunni er jafnframt fjallað ítarlega um stöðu sauðfjárræktar á alþjóðavísu og samanburð þeirrar íslensku við hana eftir því sem það er hægt, þann útflutning sem á sér stað og áhrif hans á heimamarkaðinn. Afurðaverð til bænda hérlendis er það næstlægsta í Evrópu.

Næstu skref

Í aðgerðaáætlun eru dregin saman helstu tækifæri íslenskra sauðfjárbænda til bættrar afkomu, og gerðar tillögur um aðgerðir í því sambandi. Aðgerðirnar sem eru lagðar til taka mið af þessu, þær lúta að rannsóknum á búrekstri og þróun leiðbeininga til bænda, búvörusamningum og öðru er tengist opinberri umgjörð um rekstur búa, afurðastöðva og ekki síst útflutningshluta framleiðslunnar. Tillögurnar eru nú til skoðunar innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins s, m.a. í tengslum við vinnu við sérstaka aðgerðaráætlun í sauðfjárrækt sem unnin er á grundvelli aðgerðaráætlunar til eflingar íslensks landbúnaðar. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum